Fimmtíu stig Giannis og Milwaukee meistari

Giannis Antetokounmpo fagnar meistaratitlinum í nótt eftir að hafa skorað …
Giannis Antetokounmpo fagnar meistaratitlinum í nótt eftir að hafa skorað 50 stig fyrir Milwaukee Bucks í sjötta úrslitaleiknum. AFP

Milwaukee Bucks vann loks sinn annan meistaratitil eftir fimmtíu ára bið með sigri á Phoenix Suns, 105:98, í sjötta leik úrslitarimmu NBA-deildarinnar í körfuknattleik í Milwaukee í nótt. Bucks vann þar með einvígið 4:2 eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum. 

Milwaukee varð áður NBA-meistari árið 1971 og liðið vann þennan titil með miklum karakter eftir að hafa lent undir í þremur síðustu einvígjunum, 2:0 í tveimur þeim síðustu.

Lykillinn að sigri Milwaukee var stórleikur Giannis Antetokounmpo, sem skoraði fimmtíu stig, tók fjórtán fráköst og varði fimm skot. Hann var allt í öllu í báðum vítateigjum í leiknum. Í vörn neyddi hann leikmenn Phoenix í hvívetna að breyta skotum sínum með atorku sinni, og í sókninni hreinlega bar hann liðið á sínum herðum, en aðrir leikmenn Bucks áttu erfitt með að komast í gang.

Khris Middleton skoraði 17 stig fyrir Milwaukee, Bobby Portis 16 og Jrue Holiday skoraði 12 stig og átti 11 stoðsendingar.

Phoenix bíður því enn eftir sínum fyrsta meistaratitli en Chris Paul var þar stigahæstur með 26 stig, Devin Booker  skoraði 19 og Jae Crowder var með 15 stig og 13 fráköst.

Chris Paul lýsti því yfir eftir leikinn að hann væri alls ekki hættur en vangaveltur voru um að þetta væri síðasta tímabilið hjá þessum 36 ára gamla leikmanni sem eygði möguleikann á sínum fyrsta meistaratitli á sextán árum í deildinni.

mbl.is