Fimmtán ár liðin frá síðasta Evrópuleik

Haukar urðu bikarmeistarar á dögunum og mæta Uniao í Evrópukeppninni …
Haukar urðu bikarmeistarar á dögunum og mæta Uniao í Evrópukeppninni á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Haukar, bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik, taka í kvöld á móti portúgalska liðinu Clube Uniao Sportiva í Evrópubikarnum á Ásvöllum.

Liðin mætast svo aftur á heimavelli Uniao Sportiva á Asoreyjum að viku liðinni en sigurvegarinn úr rimmu liðanna fer í riðlakeppni. Þar er um að ræða fjögurra liða riðil og bætast þá við sex leikir í keppninni hjá liðinu sem kemst áfram.

Verður þetta fyrsti Evrópuleikur hjá íslensku kvennaliði í íþróttinni í fimmtán ár. Þá voru það Haukar sem tóku þátt og léku þá sex leiki gegn liðum frá Spáni, Frakklandi og Ítalíu. Ári áður lék kvennalið Hauka einnig sex Evrópuleiki og gegn liðum frá þessum sömu löndum. Haukar er eina íslenska kvennaliðið sem tekið hefur þátt í Evrópukeppni í körfuknattleik til þessa.

Frá árinu 2006 hefur verið rólegt yfir íslensku liðunum þegar Evrópukeppnir eru annars vegar. Frá þeim tíma hefur kvennalið ekki verið með fyrr en nú en tvisvar hjá körlunum. Karlalið KR tók þátt árið 2007 og aftur árið 2018.

Uniao Sportiva hefur notið velgengni í portúgölsku deildinni og þá sérstaklega á síðustu árum. Liðið varð portúgalskur meistari 2015, 2016 og 2018. Í leikmannahópi liðsins eru tvær frá Bandaríkjunum og ein frá Hollandi en aðrar frá Portúgal.

Liðið er staðsett á Asoreyjum sem tilheyra Portúgal. Þær eru hins vegar ekkert sérstaklega nálægt Portúgal. Austasta eyjan er um 1.370 kílómetra frá höfuðborginni Lissabon og sú vestasta um 1.940 kílómetra frá. Íbúar á eyjunum eru um 235 þúsund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »