Grindavík fyrst til að leggja Stólana – Keflavík marði Blika

Ivan Aurrecoechea í leik með Þór frá Akureyri á síðasta …
Ivan Aurrecoechea í leik með Þór frá Akureyri á síðasta tímabili. Hann fór á kostum í liði Grindavíkur í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tveimur leikjum var að ljúka í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni. Grindavík vann frábæran útsigur á Tindastóli og Keflavík vann nýliða Blika með minnsta mun.

Gífurlegt jafnræði var með heimamönnum í Tindastóli og Grindvíkingum til að byrja í leiknum í kvöld. Staðan í hálfleik var enda 43:41, gestunum í Grindavík í vil.

Frábær þriðji leikhluti skóp hins vegar frækinn sigur Grindvíkinga þar sem staðan að honum loknum var 70:57.

Gestirnir héldu út í fjórða og síðasta leikhluta og unnu afar sterkan 86:77 sigur.

Þetta var fyrsta tap Tindastóls á leiktíðinni og á mánudaginn varð Grindavík einnig fyrsta liðið til þess að hafa betur gegn Njarðvík.

Grindavík er því í öðru sæti með 8 stig að loknum fimm leikjum, en Tindastóll er í þriðja sæti með 6 stig að loknum fjórum leikjum.

Spánverjinn Ivan Aurrecoechea átti sannkallaðan stórleik í liði Grindavíkur er hann náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hann 25 stig og tók 15 fráköst að auki.

Javon Bess var hins vegar stigahæstur í leiknum með 30 stig fyrir Tindastól.

Þá er morgunljóst að nýliðar Breiðabliks eru mættir í deildina til þess að gefa öllum liðum leik. Í síðustu viku tapaði liðið naumlega fyrir Tindastóli, með aðeins þremur stigum, og í kvöld tapaði liðið með einu stigi.

Keflavík vann að lokum 107:106 í Kópavogi í kvöld.

Keflavík er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 8 stig í fjórum leikjum.

Breiðablik er áfram í neðri hluta deildarinnar með 2 stig að loknum fjórum leikjum.

mbl.is