Haukar í úrslit

Haiden Palmer (t.h.) lék frábærlega í kvöld.
Haiden Palmer (t.h.) lék frábærlega í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar tryggðu sér farseðil í úrslitaeinvígið í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta kvenna með 80:73 sigri á Val í þriðja leik liðanna í kvöld. Haukar unnu einvígið því 3:0.

Fyrsti leikhlutinn var hin mesta skemmtun og skiptust liðin á körfum framan af. Mikið jafnræði var með liðunum þar til lítið var eftir af leikhlutanum en þá komust Haukar skrefi fram úr og leiddu 26:19 fyrir annan leikhluta.

Annar leikhluti var svo algjör eign Hauka sem léku á als oddi. Valur réði ekkert við frábæran sóknarleik Hafnfirðinga sem röðuðu niður hverri körfunni á fætur annarri og náðu mest 19 stiga forystu. Valur lagaði stöðuna aðeins fyrir hálfleik en þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 52:37.

Sóknarleikur Hauka gekk alls ekki jafn vel í þriðja leikhluta og fyrstu tveimur. Valur þétti raðirnar og náðu að minnka forskotið nokkuð hratt. Þegar leikhlutinn var u.þ.b. hálfnaður minnkaði Hildur Björg Kjartansdóttir muninn niður í fimm stig með þriggja stiga körfu og hélst forystan í kringum það bil út leikhlutann. Staðan fyrir fjórðaleikhluta var 65:60, Haukum í vil.

Spennan var í hámarki í fjórða leikhluta en alltaf voru Haukar skrefi á undan. Alltaf þegar Valur minnkaði muninn svöruðu Haukar og héldu þannig forskotinu í 5-10 stigum. Leikmenn Vals reyndu hvað þeir gátu til að jafna en allt kom fyrir ekki. Haukar unnu 80:73 sigur og tryggðu sér þar með 3:0 sigur og sæti í úrslitaeinvíginu gegn annað hvort Fjölni eða Njarðvík.

Haiden Palmer var átti frábæran leik og var stigahæst í liði Hauka en hún skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Helena Sverrisdóttir kom næst með 11 stig.

Hjá Val var Ameryst Alston stigahæst en hún lék frábærlega líkt og Haiden hjá Haukum. Alston skoraði 23 stig, tók 11 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Hildur Björg Kjartansdóttir átti einnig flottan leik með 18 stig og átta fráköst.

Haukar skrefi á undan allan leikinn

Haukar komust skrefi á undan strax í fyrsta leikhluta og létu forystuna aldrei af hendi. Bæði lið áttu áhlaup en Valur náði aldrei að jafna aftur. Varnarleikur Hauka í leiknum var mjög góður og sóknarleikurinn gekk smurt stærstan hluta leiksins með Haiden Palmer í broddi fylkingar. Helena Sverrisdóttir sýndi svo mikilvægi sitt þegar mest var undir en hún setti niður mikilvæg vítaskot, ásamt því að ná í dýrmæt fráköst og spila frábæra vörn.

Valur spilaði ekki beint illa í leiknum en liðið fékk mikið af opnum skotum sem voru einfaldlega ekki að detta. Þetta var vandamál allt einvígið og leikurinn í kvöld var engin undantekning. Ameryst Alston, Hildur Björg Kjartansdóttir og Ásta Júlía Grímsdóttir skiluðu flottu framlagi en aðrir leikmenn lögðu ekki nægilega mikið á vogarskálarnar.

Valur 73:80 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert