Njarðvík í úrslit eftir þriðja sigurinn í röð

Fjölniskonan Aliyah Mazyck reynir að komast að körfu Njarðvíkinga.
Fjölniskonan Aliyah Mazyck reynir að komast að körfu Njarðvíkinga. mbl.is/Árni Sæberg

Njarðvík tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta með 64:58-heimasigri á Fjölni í fjórða leik liðanna í undanúrslitum í kvöld. Njarðvík vann einvígið 3:1 og mætir Haukum í úrslitum.

Fjölnir byrjaði betur með hina bandarísku Aliyah Mazyck í miklu stuði og var staðan 14:8 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Mazyck skoraði níu af fyrstu 14 stigunum og fann sig vel.

Njarðvík óx hinsvegar ásmegin í leikhlutanum og tókst heimakonum að jafna í 19:19 undir lok leikhlutans. Aliyah Mazyck skoraði hinsvegar stórkostlegan flautuþrist í blálok leikhlutans og sá til þess að Fjölnir væri með þriggja stiga forskot þegar annar leikhluti hófst, 22:19.  

Njarðvík komst yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar annar leikhluti var hálfnaður, 25:24. Fjölnir var hinsvegar ögn betri það sem eftir lifði leikhlutans og gestirnir voru því með tveggja stiga forskot í hálfleik, 32:30.

Njarðvík byrjaði mun betur í seinni hálfleik og skoraði sjö fyrstu stigin hans og breytti stöðunni í 37:32, sér í vil. Lára Ösp Ásgeirsdóttir skoraði tvo þrista undir lok þriðja leikhluta og kom Njarðvík í níu stiga forskot, 46:37. Að lokum munaði tólf stigum á liðunum fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 51:39.

Fjölnir skoraði fimm fyrstu stigin í fjórða leikhluta og minnkaði muninn í 51:44. Þegar fjórar mínútur voru eftir var munurinn aðeins þrjú stig, 53:50. Njarðvík skoraði næstu fjögur stig og var munurinn því sjö stig þegar tvær mínútur voru eftir, 57:50. Tókst Fjölni ekki að jafna eftir það og Njarðvík er komin í úrslit. 

Aliyah Collier var stigahæst hjá Njarðvík með 21 stig og þá tók hún einnnig 24 fráköst. Diane Oumou skoraði 15 og tók 14 fráköst. Aliyah Mazyck skoraði 19 stig og tók 9 fráköst fyrir Fjölni. Sanja Orozovic skoraði 12 stig. 

Njarðvík 64:58 Fjölnir opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert