Tindastóll vann ótrúlegan tvíframlengdan leik

Zoran Vrkic úr Tindastóli sækir að körfu Njarðvíkur. Mairo Matasovic …
Zoran Vrkic úr Tindastóli sækir að körfu Njarðvíkur. Mairo Matasovic stekkur á eftir honum. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Tindastóll vann 116:107-heimasigur á Njarðvík í frábærum tvíframlengdum öðrum leik undanúrslitaeinvígis úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta karla. 

Tindastóll var 18 stigum undir á tímabili í seinni hálfleik venjulegs leiktíma en kom á einhvern ótrúlegan hátt til baka og vann að lokum sigur í annarri framlengingu. Staðan er því orðin 2:0 í einvíginu.

Heimamenn beittu sama áræðna varnarleik og þeir hafa gert alla úrslitakeppnina og voru gestirnir úr Njarðvík lengi vel í vandræðum með að leysa hann. Skagfirðingar þurftu að hafa minna fyrir sínum stigum en reynsluboltarnir í liði Njarðvíkur sáu til þess að liðið var aldrei langt undan. 

Sigtryggur Arnar Björnsson fékk sína þriðju villu snemma í öðrum leikhluta og kom ekki meira við sögu fyrr en í síðari hálfleik. Án hans gekk leikur Tindastóls vel, liðið var skrefinu á undan og þegar um ein og hálf mínúta var eftir af hálfleiknum leiddu heimamenn með níu stiga mun. Þá hins vegar settu gestirnir niður þrjár þriggja stiga körfur í röð og sáu til þess að staðan var jöfn í hálfleik, 40:40.

Þrátt fyrir að heimamenn í Tindastóli hafi skorað fyrstu fimm stig þriðja leikhluta var hann algjör eign Njarðvíkinga. Sóknarleikur liðsins fór að ganga eins og vel smurð vél, boltinn gekk á milli manna og þristarnir duttu. Að sama skapi gekk sóknarleikur Tindastóls bölvanlega sem olli því að Njarðvík seig framúr. Þegar þriðji leikhluti kláraðist leiddi Njarðvík með 18 stiga mun, 72:54. 

Tindastóll vann sig hægt og rólega inn í leikinn á ný í fjórða leikhluta og þegar tæplega fimm mínútur voru eftir setti Sigtryggur Arnar, sem var enn inná með fjórar villur, niður þriggja stiga körfu sem minnkaði muninn í sjö stig. Þegar um tvær og hálf mínúta var eftir setti Javon Anthony Bess svo niður þriggja stiga körfu sem minnkaði muninn í fimm stig. Eftir ótrúlega atburðarás jafnaði Javon Bess svo metin þegar nokkrar sekúndur voru eftir og því var framlengt. Rétt er að taka fram að Sigtryggur Arnar Björnsson, Nicholas Richotti og Fotios Lamprapoulos fengu allir sínar fimmtu villu á síðustu mínútunni og voru því ekki meira með.

Stemningin var heimamanna til að byrja með í framlengingunni og virtist vera komin þreyta í Njarðvíkurliðið. Gestirnir fundu þó einhvern innri kraft til að hanga í andstæðingum sínum og var spenna í leiknum allt til enda. Þegar nokkrar sekúndur voru eftir jafnaði svo besti maður Njarðvíkur í leiknum, Dedrick Basile metin úr tveimur vítaskotum og því var framlengt aftur.

Í seinni framlengingunni var þreytan í liði Njarðvíkur hreinlega orðin of mikil. Liðinu gekk illa að skora en á sama tíma virtist Pétur Rúnar Birgisson eiga nóg inni og lék frábærlega. Hann skoraði átta stig í röð í annarri framlengingu og lagði grunninn að ótrúlegum sigri Tindastóls.

Javon Anthony Bess var stigahæstur og bestur í liði Tindastóls með 37 stig og Taiwo Hassan Badmus kom næstur með 35 stig. Þá skoraði Pétur Rúnar Birgisson 20 stig en stór hluti þeirra kom þegar mest var undir.

Hjá Njarðvík var Dedrick Deon Basile stigahæstur með 29 stig. Fotios Lampropoulos kom næstur með 22 stig og þeir Haukur Helgi Pálsson og Mario Matasovic 19 hvor.

Næsti leikur fer fram á miðvikudaginn í Njarðvík og hefur Tindastóll þar tækifæri til að komast áfram í úrslitaeinvígið.

Njarðvík að spila á of fáum mönnum?

Í allri úrslitakeppninni hefur Tindastóll spilað á talsvert fleiri mönnum en Njarðvík. Það virtist koma sér að góðu þegar mest var undir í kvöld en þreytan virtist vera talsvert meiri í Njarðvíkurliðinu. Þetta sást sérstaklega vel í framlengingunni þegar þeir Fotios Lampropoulos og Nicholas Richotti voru báðir komnir með fimm villur.

Það verður áhugavert að sjá hvernig leikmenn mæta til leiks á miðvikudaginn eftir þennan maraþonleik. Því má ekki gleyma að á undan þessu einvígi spilaði Tindastóll fimm leiki við Keflavík á meðan Njarðvík þurfti bara þrjá gegn KR.

Sauðárkrókur, Subway deild karla, 24. apríl 2022.

Gangur leiksins:: 5:3, 11:9, 16:16, 22:19, 26:24, 30:26, 37:31, 40:40, 46:45, 50:56, 52:63, 54:72, 63:76, 71:81, 82:87, 94:94, 98:97, 103:103, 108:105, 116:107.

Tindastóll: Javon Anthony Bess 37/6 fráköst/4 varin skot, Taiwo Hassan Badmus 35/13 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 20/9 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/4 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 10, Helgi Rafn Viggósson 2, Zoran Vrkic 2/5 fráköst.

Fráköst: 31 í vörn, 9 í sókn.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 29/9 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 22/8 fráköst, Mario Matasovic 19/10 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 19/11 fráköst, Nicolas Richotti 9, Veigar Páll Alexandersson 6, Logi Gunnarsson 2, Ólafur Helgi Jónsson 1.

Fráköst: 33 í vörn, 4 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 1050

Tindastóll 116:107 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is