Fyrsti sigurinn kom gegn Rúmeníu

Þóra Kristín Jónsdóttir með boltann í leiknum í dag.
Þóra Kristín Jónsdóttir með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta vann sinn fyrsta leik í undankeppni EM kvenna í körfubolta er liðið hafði betur gegn Rúmeníu, 68:58, í Laugardalshöll í kvöld.

Ísland lék nokkuð vel í fyrsta leikhluta og náði mest fimm stiga forskoti í stöðunni 12:7. Rúmenska liðið var hins vegar sterkara seinni hluta leikhlutans og var staðan eftir fyrsta leikhluta 15:15.

Lítið gekk í sóknarleik Íslands framan af í öðrum leikhluta og skoraði íslenska liðið ekki í leikhlutanum fyrr en hann var tæplega sex mínútna gamall. Minnkaði Sara Rún Hinriksdóttir þá muninn í 20:18 með þriggja stiga körfu. Í kjölfarið komst Ísland yfir, 24:22, en aftur var Rúmenía betri í lok leikhlutans og var staðan í hálfleik 32:27, Rúmeníu í vil.

Ísland byrjaði hins vegar seinni hálfleikinn af krafti og með sjö fyrstu stigum hans komst íslenska liðið yfir, 34:32. Mikið jafnræði var með liðunum næstu mínútur og skiptust þau á að skora. Rúmenía var hins vegar ögn sterkari á lokakafla leikhlutans og fór með 50:46-forskot inn í fjórða og síðasta leikhlutann.

Íslenska liðið var ekki lengi að jafna í seinni hálfleik, 50:50. Eftir það skiptust liðin á að skora og var staðan 58:58 þegar íslenska liðið tók leikhlé og rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði Ísland fimm stig í röð, komst í 63:58, þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Þóra Kristín Jónsdóttir kom Íslandi átta stigum yfir í kjölfarið með þriggja stiga körfu, 66:58.

Sara Rún fullkomnaði stórkostlegan leik sinn þegar hún kom Íslandi í 68:58, en hún skoraði 33 stig í leiknum. Anna Ingunn Svansdóttir kom þar á eftir með tíu stig og Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði níu. 

Ísland 68:58 Rúmenía opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert