Lithái til KR-inga - níundi útlendingurinn

Justas Tamulis er kominn til KR.
Justas Tamulis er kominn til KR.

KR-ingar hafa samið við litháíska körfuknattleikmanninn Justas Tamulis um að leika með þeim út þetta tímabil.

Hann er 28 ára  gamall bakvörður, 1,94 m á hæð, og lék síðast með Sibiu í rúmensku úrvalsdeildinni. Tamulis er þegar kominn til landsins og getur leyst Jordan Semple af hólmi þegar KR mætir Grindavík á fimmtudagskvöldið en Semple er farinn frá Vesturbæjarliðinu.

Tamulis er uppalinn hjá Zalgiris Kaunas, öflugasta félagi Litháen, og hefur leikið með nokkrum liðum þar og í Rúmeníu, og var auk þess um skamma hríð í röðum Breogán á Spáni. Hann lék með yngri landsliðum Litháen.

Tamulis verður níundi erlendi leikmaðurinn til að spila með KR-ingum á þessu tímabili en sex hafa verið sendir á brott frá félaginu, nú síðast Elbert Matthews sem fer eftir leikinn gegn Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert