Þreföld tvenna LeBron í dramatískum sigri

LeBron James lék frábærlega í nótt.
LeBron James lék frábærlega í nótt. AFP/Maddie Meyer

Gamla brýnið LeBron James átti enn einn stórleikinn fyrir LA Lakers þegar liðið hafði betur gegn New York Knicks, 129:123, eftir framlengdan leik í New York í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

James náði þrefaldri tvennu og var stigahæstur í liði Lakers með 28 stig. Tók hann tíu fráköst og gaf 11 stoðsendingar að auki.

Anthony Davis var skammt undan með 27 stig og níu fráköst.

Stigahæstur í leiknum var hins vegar Jalen Brunson með 37 stig fyrir New York.

Giannis Antetokounmpo var þá í essinu sínu þegar Milwaukee Bucks lagði Charlotte Hornets að velli, 124:115.

Grikkinn öflugi skoraði 34 stig og tók auk þess 18 fráköst.

Serbinn magnaði Nikola Jokic var þá með þrefalda tvennu fyrir Denver Nuggets þegar liðið vann New Orleans Pelicans, 122:113.

Jokerinn skoraði 26 stig, tók 18 fráköst og gaf 15 stoðsendingar.

Öll úrslit næturinnar:

New York – LA Lakers 123:129 (frl.)

Milwaukee – Charlotte 124:115

Denver – New Orleans 122:113

Cleveland – Miami 97:100

Chicago – LA Clippers 103:108

mbl.is