Aðeins í annað skiptið á ferlinum sem LeBron kemur af bekknum

LeBron James á fleygiferð í leiknum gegn Chicago í gær.
LeBron James á fleygiferð í leiknum gegn Chicago í gær. AFP/Kevork Djansezian

LeBron James, stigahæsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar í körfuknattleik, hefur átt afar viðburðaríkan feril enda spannar hann tvo áratugi.

Hinn 38 ára gamli James hefur á ferli sínum leikið alls 1.680 leiki í deildarkeppni og úrslitakeppni.

Athyglisvert er að í aðeins tveimur þeirra hefur hann ekki verið í byrjunarliði félagsliða sinna.

Í gær byrjaði James á varamannabekknum og kom inn á hjá LA Lakers í 108:118-tapi fyrir Chicago Bulls. Var hann að snúa aftur í liðið eftir meiðsli.

Mjög langt er um liðið síðan það gerðist síðast. Síðast kom James inn af varamannabekknum þann 11. desember árið 2007, þegar hann lék með Cleveland Cavaliers, fyrir rúmum 15 árum síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert