Keflavík er Íslandsmeistari

Keflavík er Íslandsmeistari árið 2024.
Keflavík er Íslandsmeistari árið 2024. mbl.is/Skúli

Keflavík varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í körfubolta eftir að hafa unnið nágranna sína úr Njarðvík 72:56 og einvígið samtals 3:0.

Mikið jafnræði var á með liðunum í fyrsta leikhluta þó að Njarðvíkurkonur hafi leitt mestan part leikhlutans. Njarðvíkurkonur skoruðu fyrstu körfu leiksins og var það Ena Viso. Sara Rún Hinriksdóttir jafnaði strax fyrir Keflavík og þannig var leikhlutinn að mestu. Njarðvíkurkonur náðu mest 4 stiga forskoti í leikhlutanum í stöðunni 18:14. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 22:19 fyrir Njarðvík.

Keflavíkurkonur sýndu getumuninn í öðrum leikhluta.

Það breyttist margt í öðrum leikhluta. Það var eins og taugarnar færu með Njarðvíkurkonur sem fóru að gera klaufaleg mistök í bæði sendingum og drippli. Það notfærðu Keflavíkurkonur sér og jöfnuðu leikinn og komust yfir. Eftir það var leikhlutinn algjör einstefna og komust Keflavíkurkonur mest 11 stigum yfir í leikhlutanum. Fyrstu 5 mínútur leikhlutans skoruðu Njarðvíkurkonur einungis 2 stig.

Njarðvíkurkonur náðu að laga stöðuna fyrir hálfleik og fóru liðin inn í hálfleikinn í stöðunni 39:31 fyrir Keflavík, 8 stiga munur og allt benti til þess að bikarinn færi á loft í lok leiks.

Keflavík fagnar titlinum.
Keflavík fagnar titlinum. mbl.is/Skúli

Stigahæst í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik var Daniela Wallen með 13 stig. Elisa Pinzan var með 4 fráköst og 7 stoðsendingar í fyrri hálfleik.

Í liði Njarðvíkur var Selena Lott með 10 stig. Emilie Hesseldal var með 4 fráköst og Ena Viso með 3 stoðsendingar í fyrri hálfleik.

Keflavík kláraði leikinn í þriðja leikhluta.

Keflavíkurkonur kláruðu leikinn í þriðja leikhluta og sýndu hversu mikill munur er í raun á þessum liðum því við megum ekki gleyma því að Keflavík lék alla þessa seríu án Birnu Benonýsdóttur sem sleit krossband í undanúrslitaeinvíginu gegn Stjörnunni.

Keflavíkurkonur náðu mest 13 stiga forskoti í leikhlutanum en Njarðvíkurkonur reyndu að koma til baka og tókst að minnka muninn í 7 stig en þann mun juku Keflavíkurkonur aftur í 12 stig áður en leikhlutanum lauk. Staðan eftir þriðja leikhluta 58:46 fyrir Keflavík.

Keflvíkingurinn Daniela Wallen skýtur í kvöld. Ena Viso verst.
Keflvíkingurinn Daniela Wallen skýtur í kvöld. Ena Viso verst. mbl.is/Skúli

Keflavíkurkonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum.

Keflavíkurkonur byrjuðu fjórða leikhluta á að setja niður tvær þriggja stiga körfur í röð frá Söru Rún Hinriksdóttur og Önnu Láru Vignisdóttur. Munurinn orðinn 18 stig og leiknum lokið.

Njarðvíkurkonur reyndu hvað þær gátu að minnka muninn en ekkert gekk. Fór svo að Keflavík landaði sigri 72:56 og unnu þetta einvígi 3:0. Keflavíkurkonur eru því Íslandsmeistarar kvenna í körfubolta árið 2024.

Stigahæst í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik var Daniela Wallen með 22 stig og 9 fráköst. Elisa Pinzan var með 9 stoðsendingar í leiknum.

Í liði Njarðvíkur var Selena Lott með 21 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar.

Til hamingju Keflavíkurkonur!

Keflavík 72:56 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka