Mjög spenntur því ég er í frábæru formi

Gunnar Nelson hefur þurft að bíða afar lengi eftir bardaga.
Gunnar Nelson hefur þurft að bíða afar lengi eftir bardaga. Ljósmynd/@gunninelson

Gunnar Nelson segist vera í frábæru formi og svo sannarlega klár í slaginn eftir 17 mánaða bið frá síðasta bardaga sínum í UFC. Hann glímir við hinn brasilíska Alex Oliveira í Toronto aðfaranótt sunnudags.

Gunnar virtist á réttri leið í átt að því takmarki sínu að verða besti bardagakappinn í veltivigtarflokknum þegar hann mætti Santiago Ponzinibbio í Glasgow í júlí árið 2017. Gunnar tapaði hins vegar þeim bardaga, eftir að Ponzinibbio potaði fingri í auga Gunnars í 1. lotu, og síðan hefur Gunnar ekki keppt. Hann ætlaði sér að mæta Neil Magny í maí síðastliðnum en varð að hætta við það vegna hnémeiðsla:

„Það var óheppilegt en þetta er hluti af íþróttinni. Endurhæfingin gekk mjög vel. Hnéð er orðið fullkomið, ég hef ekki fundið fyrir neinu varðandi það í langan tíma,“ sagði Gunnar við UFC.com.

Gunnar birti mynd af sér á Instagram á dögunum og af henni að dæma er kappinn í frábæru, líkamlegu ástandi. Gunnar tekur undir það og þakkar það meðal annars æfingum undir handleiðslu styrktar- og þrekþjálfarans Unnars Helgasonar.

View this post on Instagram

One week👊 _ _ _ #UFC231 #MjolnirMMA #MjolnirStore #Sportvörur #2XU #BaklandMgmt

A post shared by Gunnar Nelson (@gunninelson) on Dec 1, 2018 at 7:24am PST

„Áður vorum við bara að gera okkar hluti sjálfir, vinna í þrekþjálfuninni upp á eigin spýtur. En þetta hefur gert allt mikið auðveldara og skemmtilegra, og hvað æfingar og árangur varðar hefur þetta komið öllu á annað stig,“ sagði Gunnar við UFC.com.

„Þetta breytti miklu því við höfum verið að vinna honum [Unnari] þrisvar í viku síðustu 3-4 mánuði. Ég hef aldrei gert þetta áður, alla vega ekki á þessu stigi, svo ég er mjög spenntur fyrir komandi átökum því mér finnst ég vera í frábæru formi,“ sagði Gunnar.

Ekki mættur til að vinna á stigum

Oliveira er í 13. sæti styrkleikalista UFC í veltivigt, sæti fyrir ofan Gunnar, og ljóst að afar mikilvægt er fyrir Gunnar að landa sigri um helgina:

„Ég held að hann sé virkilega góður keppinautur. Ég hef fylgst með honum berjast í gegnum árin og alltaf haft gaman af því,“ sagði Gunnar, sem er hins vegar staðráðinn í að ná í sigur og ætlar ekki að gera það með því að safna bara stigum:

„Þeir [stuðningsmenn Gunnars] mega búast við mér í formi og að ég fari í þetta til þess að klára dæmið eins og vanalega. Hvað sem gerist þá fer ég ekki til þess að vinna á stigum. Ég ætla að klára bardagann,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert