Gerðum heimskulega hluti

Megan Rapinoe, leikmaður Bandaríkjanna.
Megan Rapinoe, leikmaður Bandaríkjanna. AFP

Megan Rapinoe, leikmaður bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, sagði liðið ekki hafa átt roð í það sænska þegar liðin mættust í G-riðlinum á Ólympíuleikunum í morgun.

Svíar unnu öruggan 3:0 sigur þar sem bandaríska liðið sá aldrei til sólar. Þar með var bundinn endir á 44 leikja skrið þar sem Bandaríkin töpuðu ekki leik.

„Við vorum slegnar út af laginu. Mér fannst við vera svolítið stressaðar, aðeins yfirspenntar og við vorum að gera heimskulega hluti,“ sagði Rapinoe á blaðamannafundi eftir leikinn.

Það voru einmitt Svíar sem slógu Bandaríkjakonur út á síðustu Ólympíuleikum fyrir fimm árum með sigri í átta liða úrslitunum. Svíar enduðu á að næla sér í silfur á leikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 2016.

„Það er augljóst að við grófum okkur í djúpa holu en við erum þau einu sem getum komið okkur upp úr henni. Það verður ekki auðvelt.

Við þurfum að ná í jákvæð úrslit í næstu tveimur leikjum. Sú staðreynd að það er enn möguleiki þýðir að ég veit að þetta lið er ekki að fara að gefast upp,“ bætti Vlatko Andonovski, þjálfari Bandaríkjanna, við á blaðamannafundinum.

mbl.is