Marta María með forystu

Íslensku stúlkurnar sem keppa í listhlaupi á skautum á Reykjavíkurleikunum um helgina byrjuðu vel á fyrsta keppnisdegi.

Marta María Jóhannesdóttir er efst eftir stutta prógramið í Stúlknaflokki A (Advanced Novice). Hraði og útgeislun réði ríkjum hjá henni í dag og var hún rétt frá sínu besta skori með 30.76 stig. Marta María er tæpum 4 stigum á undan hinni norsku Kari Sofie Slørdahl Tellefsen sem setti persónulegt met í dag með 27.14 stig. Árangur Mörtu Maríu er ekki síður merkilegur þar sem hún er yngst af 11 skauturum í flokknum. Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir er svo í þriðja sæti með 25.86 stig.

Keppnin í listhlaupi á skautum er sérstaklega hörð í ár því 25 erlendir keppendur taka þátt ásamt öllum bestu íslensku skauturunum. Á morgun, laugardag, munu úrslit ráðast í Stúlknaflokki en auk þess hefst keppni í Junior Men, Junior Ladies og Senior Ladies. Dagskrá morgundagsins hefst kl. 12.30 í Skautahöllinni Laugardal.

mbl.is