Erfiðir og rosalega langir 200 metrar

Kolbeinn Höður Gunnarsson fagnar sigri í 60 metra hlaupi í …
Kolbeinn Höður Gunnarsson fagnar sigri í 60 metra hlaupi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Höður Gunnarsson kom fyrstur í mark í 60 og 200 metra hlaupum á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll í dag. Kolbeinn kveðst ánægður með árangurinn þrátt fyrir að hafa ætlað sér stærri hluti. 

„Ég get ekki annað en verið ánægður þótt þetta hafi ekki alveg verið það sem ég ætlaði mér. Ég ætlaði mér að ná lágmarki fyrir EM í 60 metra hlaupi sem er 6,77. Ég var á 6,87 í dag sem er svolítið frá því en, þó ekki nema 10 sekúndubrot. Viðbragðið og startið var ekki nógu gott og ég þarf að hreyfa mig aðeins hraðar,“ sagði Kolbeinn við mbl.is. 

„Maður er aðeins undir pari þegar stemningin er ekki alveg eins og maður hefði viljað með áhorfendur. Svo er oft gott að hafa undanúrslit og úrslit sem var ekki raunin í dag. Ég er samt sáttur og tek því sem kemur,“ bætti hann við. 

Kolbeinn viðurkenndi að 200 metra hlaupið hafi tekið vel á, enda langt síðan keppni var leyfð hér á landi. „200 er mín sterkasta grein en í dag var hún það svo sannarlega ekki, þetta voru erfiðir og rosalega langir 200 metrar enda langt síðan síðast. Maður þarf að taka 1-2 hlaup til að venjast þessari vegalengd aftur.“

Hann er hæstánægður með að keppni sé hafin á ný eftir keppnisbann. „Þetta er frábært. Það er langt síðan maður gat keppt og vonandi getur maður það áfram núna,“ sagði Kolbeinn sem ætlar sér langt á árinu. „Stefnan er sett á EM í mars, það er stóra gulrótin. Þangað til eru nokkur innanfélagsmót þar sem ég fæ tækifæri til að ná lágmarkinu,“ sagði Kolbeinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert