Met slegin og lágmörkum náð á fyrsta degi sundmóts RIG

Frá fyrsta degi sundkeppni RIG 2023
Frá fyrsta degi sundkeppni RIG 2023 Ljósmynd/Hafsteinn Snær

Sundmót Reykjavíkurleikanna byrjaði með látum í Laugardalslauginni í kvöld með mótsmeti og aldursflokkameti auk þess sem fjórum lágmörkum var náð.

Beatrice Varley úr Playmouth Leander setti nýtt mótsmet í 400 metra fjórsundi á tímanum 4:52.05. Gamla metið var 4:57,58 sem Sara Nordenstam setti árið 2008.

Snorri Dagur Einarsson úr SH náði lágmarki í 50 metra bringusundi á Evrópumeistaramót unglinga á tímanum 29.08. Mótið verður haldið 4. - 9. júlí í Belgrad í Serbíu.

Hólmar Grétarsson úr SH sló aldursflokkamet Birnis Freys Hálfdánarsonar í 400 metra fjórsundi á tímanum 4:43,12, einnig náði hann lágmarki á Ólympíudaga Evrópuæskunnar sem verður haldið í Slóveniu í júlí. 

Magnús Víðir Jónsson úr SH náði lágmarki inn á Norðurlandamót æskunnar í 1500 metra skriðsundi á tímanum 16:48,78. NÆM verður haldið í Jönköping í Svíþjóð í júlí.

Ásdís Steindórsdóttir úr Breiðabliki náði einnig lágmarki inn á Norðurlandamót æskunnar í 800 metra skriðsundi á tímanum 9:41.29.

Alls komust 27 Íslendingar áfram í úrslitin sem fara fram um helgina eins og staðan er núna. Staðan gæti hinsvegar breyst þar sem Færeyingarnir festust vegna veðurs og koma seint í kvöld. Þau fá því tækifæri til að synda 50m greinarnar á morgun og þá gæti staðan breyst varðandi það hverjir komast í úrslit.

Fannar Snævar Hauksson úr ÍRB var annar inn í úrslit í 50 metra baksundi karla og Guðmundur Leó Rafnsson úr ÍRB var þriðji inn. Fyrstu fjórir strákarnir inn í úrslit syntu allir á 28 sek svo það verður barist um verðlaunapallinn þar en 50 metra baksund verður fyrsta grein á morgun kl 16.30.

Fjögur úrslitasund fóru fram í dag

Sigurvegarar í opnum flokki voru eftirfarandi:

400m fjórsund karla: John Britton, Ealing SC

400m fjórsund kvenna: Beatrice Varley, Playmouth Leander

1500m skriðsund karla: Liggjas Joensen, Ægi

800m skriðsund kvenna: Phyllida Miss Britton, Ealing SC

Hægt er að skoða tímaseðil mótsins hér og finna úrslitin hér. 

mbl.is