Framkvæmdir hefjast í vetur

Álver Norðuráls að Grundartanga
Álver Norðuráls að Grundartanga

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir tengdar viðbyggingu við aðveitustöð Norðuráls á Grundartanga hefjist nú í vetur og um 100 manns munu fá vinnu vegna þeirra. Þetta segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri félagsins, í samtali við mbl.is, en fyrr í dag var sagt frá verkefni fyrir meira en 10 milljarða sem er í burðarliðnum hjá Norðuráli á næstu 5 árum.

Ragnar segir að verkfræðilegur undirbúningur sé nú þegar í gangi, en að hafist verði handa við að reisa byggingu seinna í vetur. Næsta vor er svo gert ráð fyrir að vélar og búnaður komi erlendis frá og í framhaldinu verður farið í næstu áfanga sem munu að endingu auka framleiðslu um allt að 50 þúsund tonn af áli á ári. 

Fyrsti hlutinn tengist stækkun aðveitustöðvar og að bæta við afriðlaeiningu og undirspennuvörn. Norðurál gerði fyrr á árinu samning upp á 1 milljarð við íslenska verkfræðifyrirtækið Alu1 vegna málsins eins og mbl.is gerði áður skil.

Spurður um fjármögnun verkefnisins segir Ragnar að þetta sé erlend fjárfesting og verið sé að athuga hvort hún falli undir fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, en það sé þó ekki enn orðið ljóst.

Í yfirlýsingu vegna framkvæmdanna gagnrýnir Ragnar „endurtekin áform ríkisstjórnarinnar um aukna skattlagningu þrátt fyrir loforð og samninga um annað“. Mbl.is hefur áður fjallað um málið þar sem aðilar innan álgeirans hafa einnig gagnrýnt meint svik á loforðum. Í lokin segist Ragnar treysta á að ráðherrann sem undirritaði samkomulagið og sé nú fjármálaráðherra muni standa við samningana. „Við treystum á nýjan fjármálaráðherra sem skrifaði sjálf undir samkomulagið á sínum tíma og trúum ekki öðru en að ríkisstjórnin standi við gerða samninga. Þá mun allt fara á fullt á næstu mánuðum og misserum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK