Verðbólguvæntingar á markaði lækka

Niðurstöður könnunar Seðlabanka Íslands á væntingum markaðsaðila gefa til kynna að verðbólguvæntingar þeirra til skemmri og lengri tíma hafa lækkað lítillega miðað við síðustu könnun bankans sem framkvæmd var í febrúar.

Könnunin var framkvæmd dagana 2. til 4. maí sl. Leitað var til 30 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 22 aðilum og var svarhlutfallið því 73%.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar um 1,9-2,0% verðbólgu á þessu ári en að hún muni aukast á fyrri helmingi næsta árs og verði 2,2-2,4%. Þá vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,6% eftir tvö ár og einnig að meðaltali næstu fimm og tíu ár. Á heildina litið lækka verðbólguvæntingar um 0,1-0,3 prósentur milli kannana.

Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 111 krónur eftir eitt ár, þ.e. að gengi krónu verði rúmlega 5% hærra en það var við framkvæmd könnunarinnar nú í maí. Er það meiri hækkun en þeir gerðu ráð fyrir í febrúar.

Markaðsaðilar vænta þess að gengi evru gagnvart krónu verði 111 ...
Markaðsaðilar vænta þess að gengi evru gagnvart krónu verði 111 krónur eftir eitt ár. AFP

Reikna með lægri vöxtum

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að vextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur á öðrum fjórðungi þessa árs. Það samsvarar því að meginvextir bankans lækki úr 5% í 4,75%. Þeir vænta enn frekari lækkunar á fjórða ársfjórðungi en gera hins vegar ráð fyrir því að meginvextirnir verði hækkaðir á ný í 4,75% á öðrum fjórðungi 2018. Þetta eru lægri vextir en þeir væntu í febrúarkönnuninni.

Þegar könnunin var framkvæmd töldu um 43% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt sem er um 2 prósentum hærra hlutfall en í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða allt of þétt hækkaði um 4 prósentur og var 57%. Enginn þátttakandi taldi taumhaldið of laust eða allt of laust.

Meirihluti telur að húsnæðisverð hækki hægar

Í könnuninni í maí voru markaðsaðilar spurðir hvort þeir teldu að húsnæðisverð muni hækka hraðar, jafnhratt eða hægar á næstunni en það hefur gert undanfarið ár. Um 60% svarenda töldu að árshækkun húsnæðisverðs verði hægari næsta hálfa árið en í apríl sl. þegar árshækkunin var 20%. Aðrir töldu að árshækkunin yrði jafnhröð. Hins vegar töldu 95% svarenda að hægja muni á hækkun húsnæðisverðs næsta árið. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir