Loforðin lýsa vanda íslenskra stjórnmála

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Hanna

„Það er sérstakur kapítuli að loforðastraumur stjórnmálaflokka þessa dagana getur falið í sér allt að 100 milljarða árleg aukin útgjöld án þess að hugað sé að fjármögnun þeirra,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins á opnum fundi SA sem fram fór í Hörpu í morgun.

„Enn eina ferðina keppast stjórnmálaflokkar við að yfirbjóða hver annan á óábyrgan hátt með bólgnum kosningaloforðum.“

Eyjólfur segir að það lýsi grundvallarvanda íslenskra stjórnmála að stjórnmálamenn og flokkar komist upp með slíkt ábyrgðarleysi og kunni það að vera meginástæða þess vantrausts sem þeir búi við hjá þjóðinni. 

„Vegna þessa er nú mikil hætta á að hin séríslenska, reglubundna hringrás í efnahagsmálum og höfrungahlaup á vinnumarkaði muni öðlast nýtt líf með aukinni verðbólgu, vaxtahækkunum og tilheyrandi óvissu,“ bætti Eyjólfur við.

Hann nefnir að úrelt kjarasamningalíkan á Íslandi hafi valdið því að atvinnulífið byggi við stöðuga óvissu um launabreytingar og verðbólgu og þessi óvissa sé nú meiri en oft áður. Auk þess verði víðtæk loforð stjórnmálamanna um aukin ríkisútgjöld vart fjármögnuð öðruvísi en með miklum skattahækkunum sem aftur muni þýða auknar kröfur um launahækkanir í kjarasamningum með tilheyrandi verðbólgu.

Fyrirtækin munu bregðast við þessari stöðu með því að draga úr fjárfestingum, hægja á nýsköpun og forðast áhættu á mörkuðum. Þau munu halda að sér höndum og reyna að byggja á því sem fyrir er.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir