„Viðurkenning á því sem þarna fór fram“

Ragnhildur Ágústsdóttir í Kastljósþætti kvöldsins.
Ragnhildur Ágústsdóttir í Kastljósþætti kvöldsins. "Ég vildi helst ekki ræða þetta og vildi helst sem minnst vita af þessum mönnum,“ sagði Ragnhildur. Mynd/Skjáskot af vef RÚV

Ragnhildur Ágústsdóttir, fyrrverandi forstjóri Tals, fékk í dag afsökunarbeiðni frá karlmanni vegna hans hlutar í ofbeldi sem hún var beitt er hún var neydd til að segja starfi sínu lausu árið 2009. Þetta kom fram í viðtali við Ragnhildi í Kastljósi í kvöld, en hún hefur í dag fengið mikil viðbrögð við grein sem hún skrifaði og sem birt var á Kjarnanum um kynbundið ofbeldi sem hún varð fyrir í starfi.

Í greininni fjallaði hún um það þegar karl­menn lokuðu hana inni í fund­ar­bergi, meinuðu henni út­göngu og þvinguðu hana til að skrifa und­ir samn­ing. Ragn­hild­ur var barns­haf­andi á þess­um tíma.

„Ég hef alls ekki látið þetta stoppa mig og hef ekki látið þetta hamla mínum frama. Ég hef þó vissulega þurft að hugsa mig betur um en ég hefði kannski annars gert,“ sagði Ragnhildur í Kastljósinu. „Ég tók þetta mál og vildi sem minnst af því vita. Ég pakkaði þessu saman og ýtti til hliðar. Ég vildi helst ekki ræða þetta og vildi helst sem minnst vita af þessum mönnum.“

Eftir birtingu greinarinnar í dag hafi hún síðan fengið tölvupóst frá einum þeirra sem áttu hlut að máli „Þar sem hann biðst afsökunar á sínum hlut í þessu máli,“ segir hún. „Það kom mér nokkuð á óvart og mér finnst það vera ákveðin viðurkenning á því sem þarna fór fram.“

Kveðst Ragnhildur þó enn vera að melta póstinn.   „Ég vona þó að þetta séu kannski skilaboð um það að #MeToo byltingin sé að hafa tilætluð áhrif. Að það sé verið að koma í veg fyrir það og lýðist ekki að einstaklingar, í mörgum tilfellum karlmenn, geti misbeitt valdi sínu gegn öðrum, í mörgum tilfellum konum, í skjóli stöðu sinnar eða mögulega kynferðis.“

Með grein sinni hafi hún viljað vekja athygli á því að svona hegðun hafi átt sér stað í viðskiptalífinu og það sé ólíðandi.  

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir