Icelandair metur tjón sitt

Vinna til þess að meta mögulegt tjón Icelandair vegna málsins …
Vinna til þess að meta mögulegt tjón Icelandair vegna málsins er þegar hafin.

„Eins og hjá öðrum þá virðast þetta fyrst og fremst vera viðbrögð við því sem er að gerast í umhverfinu,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, um ákvörðun Boeing um að kyrrsetja allan 737 MAX 8-flugflotann.

Jens segir málið ekki horfa öðruvísi við félaginu, en áður hafði komið fram í máli Jens að Icelandair hefði enn fulla trú á vélunum.

„Þeir tala um að einhverjar nýjar upplýsingar hafi komið fram,“ segir Jens, en að það sé lítið á bakvið þær fullyrðingar. „Það var kominn gríðarlegur þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu og eðlilegt hjá þeim að bregðast svona við.“

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair. mbl.is/Steingrímur Eyjólfsson

Aðspurður hvort Boeing hafi með þessu skapað sér ábyrgð eða jafnvel bótaskyldu gagnvart flugfélögunum sem hafa MAX 8-þotur í flotum sínum segir Jens það verða að koma í ljós. „Eins og þegar maður kaupir aðra hluti þá er ákveðin verksmiðjuábyrgð. Þetta eru mjög flóknir samningar og eflaust hægt að toga eitthvað fram og til baka í þeim en sú vinna er ekki farin af stað hjá okkur.“

Jens segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort Icelandair muni fara fram á bætur frá Boeing. „Hvernig það er gert, verði það gert, er ekkert efni fyrir opinbera umræðu heldur eitthvað sem við leysum með Boeing.“

Vinna til þess að meta mögulegt tjón Icelandair vegna málsins er þegar hafin og segir Jens það grundvallaratriði hversu lengi kyrrsetning vélanna varir. Þá er félagið þegar farið að skoða viðbragðsáætlanir komi til þess að vélarnar verði teknar úr umferð til lengri tíma.

En hefur þetta áhrif á kaupverð Icelandair á nýju vélunum?

„Ég á ekki von á því. Þetta eru flóknir samningar og við auðvitað ræðum þetta á einhvern hátt við Boeing, en að þetta hafi áhrif á kaupverðið sjálft er afar hæpið.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK