Tvöfalt fleiri flugvirkjar en þegar WOW féll

Guðmundur Úlfur segir að ekki sé hægt að hætta öllu …
Guðmundur Úlfur segir að ekki sé hægt að hætta öllu viðhaldi flugvéla þótt þær standi hreyfingarlausar. Sé það gert sé verið að búa til mikinn uppsafnaðan vanda þegar taka eigi vélarnar í notkun að nýju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er engin lausn að segja upp miklum fjölda flugvirkja þótt árferðið sé erfitt því það mun aðeins búa til gríðarlegan uppsafnaðan vanda innan margra mánaða, auk þess sem það gæti reynst bæði mjög dýrt og tímafrekt að koma flugvélaflotanum aftur í loftið ef hann stendur óhreyfður og án viðhalds í langan tíma. Þetta segir Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, en hann segir að búast megi við því að um 150 flugvirkjar, eða helmingur allra flugvirkja Icelandair, missi vinnuna þegar Icelandair tilkynni uppsagnir sínar á morgun. Yrði það langstærsta högg þessarar stéttar hingað til, en þegar WOW air varð gjaldþrota misstu helmingi færri vinnuna.

Að leggja flotanum og sinna engu viðhaldi ekki raunhæft

Í dag starfa 303 flugvirkjar hjá Icelandair. Guðmundur segir að verkefni þeirra sé að huga að þúsundum mismunandi atriða sem þarf að framkvæma við viðhald og skoðun flugvéla félagsins. Hann segir að það að leggja flotanum og sinna engu viðhaldi sé ekki raunhæft og myndi valda gríðarlegu fjárhagslegu tjóni fyrir flotann og þar með á eignum flugfélagsins.

„Það er hægt að bíða smá með að sinna viðhaldi og kaupa sér tóm með að setja flotann í geymsluviðhaldskerfi. Það eru kannski hámark þrír mánuðir, en það þarf samt lágmarksviðhald á þeim tíma,“ segir Guðmundur. Nú þegar verið er að teikna upp sviðsmyndir vegna áhrif af útbreiðslu kórónuveirunnar hefur jafnvel verið talað um að flugsamgöngur og ferðamennska hingað til lands muni ekki komast í eðlilegt horf fyrr en á næsta ári. Flotinn gæti því verið í bið í talsvert lengri tíma og segir Guðmundur að flugvélum líði illa að vera lagt svo lengi. „Þá verður erfiðara að taka þær í notkun aftur,“ segir hann.

Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands.
Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Flotinn breytist ekkert þótt helmingi starfsmanna sé sagt upp

Guðmundur sýnir reynslu af hreyfingarleysi flugvéla sýna að þá myndist uppsafnaður vandi þannig að í stað þess að sinna stöðugt minna viðhaldi meðan vélin er í rekstri gæti komið upp sú staða, sé viðhaldi ekki sinnt, að bæði sé kostnaðarsamt og tímafrekt að koma vélunum í loftið. Nefnir hann t.d. að heildarskoðun, svokölluð C-skoðun, sem þarf að fara í á 18—24 mánaða fresti, geti tekið einn upp í tvo mánuði og eftir mikið hreyfingarleysi sé jafnan meira um alls konar aðfinnslur.

Icelandair hefur í flota sínum 20—30 vélar í notkun hverju sinni og hefur þurft um 300 flugvirkja til að sinna þeim. Bendir Guðmundur á að þótt helmingi starfsmanna sé sagt upp sé flotinn ekkert að breytast og þar með sé félagið að kaupa sér tímabundið ástand og verið að vona að vélarnar fari ekki illa. „En ef það á að fara að nota þær aftur verður ótækt að hafa þennan fjölda til að sinna þeim aftur,“ bætir hann við.

Ábyrgðin er okkar

Þá segir Guðmundur að horfa þurfi til ábyrgðarinnar sem flugvirkjar skrifi undir með sínu nafni við viðhald véla. Segir hann að ekki megi koma málum þannig fyrir að flugvirkjar geti ekki komist yfir að sinna sínu starfi almennilega meðan vélarnar séu stopp og þegar þær komist í notkun aftur. „Það þarf að vera raunhæft að fjöldi flugvirkja tóni við fjölda flugvéla. Ábyrgðin er okkar og við getum ekki beygt okkur undir hvað sem er.“

Flugvirkjafélagið hefur að sögn Guðmundar verið í daglegum samskiptum við forsvarsmenn Icelandair og segir hann að í uppsögnunum verði horft til starfsaldurslista og þeim sem séu með stystan starfsaldur verði sagt upp. „Þetta eru stærstu uppsagnir í sögu Flugvirkjafélagsins,“ bendir hann á og upplýsir að þegar WOW air hafi orðið gjaldþrota hafi 67 flugvirkjar misst vinnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK