Eðlilegt að Rio Tinto upplýsi um uppsagnarákvæði

Álverið í Straumsvík er nú rekið á 85% afkastagetu. „Ef …
Álverið í Straumsvík er nú rekið á 85% afkastagetu. „Ef Landsvirkjun tekur ekki á misnotkun sinni hefur ISAL engan annan kost en að íhuga uppsögn raforkusamningsins og hefja undirbúning undir lokun álversins,“ segir í skriflegu svari talsmanns Rio Tinto til mbl.is. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eðlilegt er að gera ráð fyrir því að kanadíska álfyrirtækið Rio Tinto upplýsi um uppsagnarákvæði orkusamningsins við Landsvirkjun þar sem fyrirtækið kýs að gera mögulega uppsögn að umtalsefni. Þetta segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í grein í Sunnudagsmogganum í morgun

Þar bendir hún jafnframt á að fá árinu 2008 hafi fyrirtækið selt eða lokað öllum álverum sínum í Evrópu utan Íslands, sjö talsins. Þrjú þeirra voru í Bretlandi, eitt í Noregi og þrjú í Frakklandi. 

Þórdís gerir að umtalsefni sínu kvörtun Rio Tinto til Samkeppniseftirlitsins vegna meintrar misnotkunar Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu sinni á raforkumarkaði. Með því gefur fyrirtækið í skyn, að sögn ráðherra, að það kunni að loka álverinu í Straumsvík, ISAL, eftir rúmlega 50 ára starfsemi hér á landi. Þórdís segir ástæðu til að ætla að umhverfisvænar orkulindir Íslands verði áfram eftirsóttar. Þótt bjóða verði fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi verði einnig að gera þá kröfu að sala á orkuafurðum úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé arðbær.

„Við erum nýbúin að ganga í gegnum langvinna umræðu um þriðja orkupakkann sem snerist að miklu leyti um nauðsyn þess að standa vörð um sameiginlegar orkuauðlindir okkar. Af þeirri umræðu hlýtur að leiða að talað sé gegn því að við setjum þær á útsölu.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vill að trúnaði um raforkusamning sé aflétt

Trúnaður ríkir milli Landsvirkunar og Rio Tinto um skilmála raforkusamnings fyrirtækjanna, sem síðast var endurnýjaður 2010 og gildir til 2036. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur óskað eftir því formlega við Rio Tinto að trúnaðinum verði aflétt en umræður um slíkt hafa staðið yfir í febrúar eða frá því félagið tilkynnti fyrst að rekstrargrundvöllur álversins yrði endurskoðaður vegna slæmrar stöðu sem félagið sæi ekki leið út úr.

Í viðtalinu sagði Rannveig Rist, forstjóri ISAL, spurð út í raforkuverð álversins: „Vandi minn í þessu er að verðið er því miður trúnaðar­mál. Ég vildi svo gjarn­an vilja segja frá verðinu, en þegar samn­ing­ur­inn var gerður þá var staðan þannig hjá Lands­virkj­un að þeir mátu það sem mjög mik­il­vægt að verðinu yrði haldið leyndu og það hef­ur alla tíð verið mjög óheppi­legt fyr­ir okk­ur.“ 

Nú er hins vegar annað hljóð komið í skrokkinn en í yfirlýsingum síðustu daga hafa talsmenn álversins sagt að þeir vilji ekki aflétta trúnaði nema önnur álver geri slíkt hið sama. „Við höfum alltaf sagst vera tilbúin til að greina frá samkomulaginu ef Landsvirkjun og önnur álfyrirtæki eru tilbúin að sýna sama gagnsæi. Það verður aldrei skynsamleg umræða um raforkuverð fyrir stóriðju á Íslandi ef aðeins ISAL afléttir trúnaði,“ segir í skriflegu svari talsmanns Rio Tinto í Kanada til mbl.is.

Að mati Þórdísar orkar það tvímælis að „varpa slíkum skugga óvissu“ sem felst í yfirlýsingum um mögulega uppsögn orkusamningsins, án þess að varpa á sama tíma ljósi á uppsagnarákvæði hans. „Fyrirtækið kýs að gera mögulega uppsögn að umtalsefni. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir að fyrirtækið upplýsi hvaða skilyrði gilda um slíka uppsögn,“ segir Þórdís.

Svör Rio Tinto hafi verið á þá leið að fyrirtækið vilji ekki opna orkusamninginn nema önnur stóriðjufyrirtæki geri það líka, en Þórdís bendir á að önnur fyrirtæki í stóriðju hafi ekki talað um að segja orkusamningum sínum upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK