Landsvirkjun lækkar verð til álvera

Stórnotendur munu fá raforkuna á kostnaðarverði út október 2020.
Stórnotendur munu fá raforkuna á kostnaðarverði út október 2020. mbl.is/Jón Pétur

Landsvirkjun hefur lækkað verð til stórnotenda sinna tímabundið niður í kostnaðarverð. Ráðstöfunin er tímabundin, frá 1. maí til 31. október en með ákvörðuninni lækkar verð til stórnotenda niður í um 28 til 35 dali á Megawattstund eða um allt að 25%. Fyrir vikið verður Landsvirkjun af um 10 milljónum dala, um 1,45 milljörðum króna.

Í samtali við mbl.is segir Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, að ákvörðunin sé tekin til að létta undir með fyrirtækjum nú þegar markaðsaðstæður hafa versnað. „Það er hagur okkar að þessi fyrirtæki, sem við erum í langtímaviðskiptasambandi við og eru mörg hver grundvöllur efnahagskerfis okkar, standi af sér ástandið,“ segir Stefanía.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.
Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar. Ljósmynd/Aðsend

Stórnotendur eru skilgreindir sem þeir notendur sem nota allt árið yfir 10 MW af orku, eða sem jafngildir 87,6 gígawattstundum á ári. Að sögn Stefaníu eru það álver, gagnaver og kísilver, allt fyrirtæki þar sem raforka er stór hluti af breytilegum kostnaði. Fyrirtækin hafa gert langtímasamninga um raforkuverð en nú hefur Landsvirkjun, sem fyrr segir, veitt þeim tímabundinn afslátt.

Nokkur umræða var um raforkusamning Rio Tinto Alcan fyrr á árinu, er forsvarsmenn álfyrirtækisins gáfu það út að ein af forsendum þess að hægt væri að halda starfsemi þess gangandi áfram væri að raforkusamningurinn væri endurskoðaður. Leynd hvílir yfir raforkusamningnum en bæði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Rannveig Rist, þáverandi forstjóri Rio Tinto Alcan, hafa lýst yfir vilja til að aflétta leyndinni. Landvirkjun hefur óskað formlega eftir því að trúnaði verði aflétt og segir Stefanía að samtal við Rio Tinto Alcan sé í gangi. „Sem stórt fyrirtæki á orkumarkaði er gríðarlega mikilvægt að við getum veitt eins mikið gagnsæi og kostur er.“

Verðlækkun á erlendum mörkuðum spilar inn í

Auk minnkandi eftirspurnar, spilar inn í að raforkuverð á erlendum mörkuðum hefur lækkað töluvert að undanförnu. „Við horfum mikið til Nordpool, raforkumarkaðarins á Norðurlöndum. Þar sjáum við að í síðasta mánuði var raforkuverðið það lægsta sem við höfum séð í tuttugu ár,“ segir Stefanía.

Rímar þetta við yfirlýsingar Jóhanns Snorra Sigurbergssonar, forstöðumanns viðskiptaþróunar hjá HS Orku stærsta eiganda Vesturverks, í Morgunblaðinu á föstudag í tilefni af ákvörðun Vesturverks um að segja báðum starfsmönnum sínum upp og setja vinnu við Hvalárvirkjun á ís.

Spurð hvort verðlækkunin taki einnig til einstaklinga og almennra fyrirtækja, segir Stefanía svo ekki vera. Landsvirkjun sér ekki um smásölu raforku, en selur til smásölufyrirtækja. Er markaðshlutdeild Landsvirkjunar á almennum markaði um 50%. „Verðlagning okkar á heildsölumarkaði er ákveðin með reglulegum hætti og hann er aðeins dínamískari.“ Með öðrum orðum þurfi ekki sérstaka ákvörðun sem þessa til að lækka verðið.

Stefanía bendir þó á að minnihluti raforkuverðs í smásölu komi til vegna framleiðslunnar. Samkvæmt tölum frá 2018 er þetta hlutfall um þriðjungur, en dreifingarkostnaður 39%, flutningur 10% og skattar 21%. „Ef það ætti að lækka raforkukostnað [til heimila og fyrirtækja] þyrfti að heimila dreifiveitum að lækka tímabundið flutnings- og dreifigjald,“ segir Stefanía, en raforkudreifing er sérleyfisskyld starfsemi og fylgir opinberri verðskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK