Bjartsýnin er farin

Kristófer Oliversson reiknar ekki með því að hingað komi margir …
Kristófer Oliversson reiknar ekki með því að hingað komi margir ferðamenn á meðan þeir þurfa að fara í sóttkví. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég sé ekki annað annað að þetta stöðvi allar komur ferðamanna til landsins, eða nánast allar. Það kemur enginn hingað til að vera hér í sóttkví og ég held að þau sem taka þessa ákvörðun geri sér alveg grein fyrir því.“

Þetta segir Kristófer Oliversson, formaður FHG – Fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri Center hótela, í samtali við mbl.is um hertar aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirunnar.

Öll þau sem koma hingað til lands eigi síðar en frá og með miðvikudeginum 19. ágúst þurfa að fara í sýnatöku. Síðan fer fólk í sóttkví og í aðra sýnatöku fjórum til sex dögum síðar. Þetta er töluverð breyting frá því fyrirkomulagi sem hefur verið í gildi frá miðjum júlí en þá voru ferðamenn frá Grænlandi, Færeyjum, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi ekki skimaðir.

Ætluðu að hefja endurráðningar

Kristófer segir ljóst að þetta muni hafa mikil áhrif á reksturinn og að nú hljóti að þurfa ræða framlengingu á þeim úrræðum sem hafa verið í boði fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustunni. Áform Center hótela hafi verið að hefja endurráðningar á starfsfólki nú um mánaðamótin.

„Við merktum það allavega í Reykjavík í þessari viku að það var meira um bókanir en við göngum náttúrulega út frá því að það stoppi allt saman núna í kjölfar þessarar ákvörðunar. Það var farið að gæta smá bjartsýni en hún er náttúrulega farin núna,“ segir hann.

Eins og skyndilokun í sjávarútveginum

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í samtali við mbl.is að búið væri að loka íslenskri ferðaþjónustu með ákvörðuninni að skima alla sem koma hingað til lands. Ljóst væri að engin önnur sjónarmið en sóttvarnasjónarmið réðu för. Undir það tekur Kristófer.

„Það er alveg klárt að það eru bara sóttvarnasjónarmið sem ráða för,“ sagði hann og líkti þessu við það þegar stjórnmálamenn fái tillögur frá Hafrannsóknarstofnun og samþykki þær. Nú séu það tillögur sóttvarnalæknis sem eru samþykktar.

„Þetta er bara eins og skyndilokun sem nær yfir landið og miðin,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK