Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 674%

Vök Baths við Egilsstaði hafa notið vinsælda hjá ferðamönnum í …
Vök Baths við Egilsstaði hafa notið vinsælda hjá ferðamönnum í sumar.

Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 674% á Austurlandi og 552% á Norðurlandi í júlí. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu aðeins um 54%. Gistinóttum Íslendinga fækkaði um 49% á Suðurnesjum í júlí, væntanlega vegna þess að lítið var um utanlandsferðir þann mánuðinn. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans

Í Hagsjánni kemur fram að í apríl voru gistinætur Íslendinga á íslenskum hótelum í fyrsta skiptið fleiri en gistinætur erlendra ferðamanna en gögn Hagstofunnar ná aftur til ársins 1997. „Frá og með maí hafa gistinætur Íslendinga haldið áfram að vera fleiri en gistinætur erlendra ferðamanna þrátt fyrir að gistinóttum erlendra ferðamanna hafi fjölgað nokkuð eftir því sem dró úr ferðatakmörkunum upp úr miðjum júní,“ segir í Hagsjánni.

Rakið er að í upphafi kórónuveirufaraldursins hafi fækkun gistinótta verið mjög svipuð eftir svæðum. „Þannig lá hún á fremur þröngu bili í mars, apríl og maí. Í júní fór að draga í sundur með svæðum hvað fækkunina varðar og í júlí kom í ljós verulegur munur í fækkun gistinótta. Þannig var fækkun gistinótta mest á Suðurnesjum, 74,4% og 73,9% á höfuðborgarsvæðinu í júlí. Þar á eftir kom Suðurland með rúmlega helmings fækkun. Fækkunin reyndist hins vegar töluvert minni á öðrum svæðum. Á Vesturlandi og Vestfjörðum mældist hún 25,6% en einungis 13,5% á Austurlandi og 8,1% á Norðurlandi.“

Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi og Austurlandi nutu góðs af ferðagleði landsmanna í sumar. Gistinætur erlendra ferðamanna drógust saman um 78% og var það svipað hlutfall og á öðrum svæðum. Gistinætur Íslendinga margfölduðust hins vegar á Austurlandi og Norðurlandi eins og  áður var nefnt. Á eftir Austurlandi og Norðurlandi var fjölgunin mest á Suðurlandi, 312% og Vesturlandi og Vestfjörðum 203%.

„Það þarf því ekki að koma á óvart að herbergjanýtingin hafi verið best á Norðurlandi og Austurlandi í júlí. Nýtingin var 70,8% á Norðurlandi og 73,3% á Austurlandi. Þar á eftir voru Vesturland og Vestfirðir með 55,5% nýtingu. Nýtingin var lægst á Suðurnesjum, 29,1% og höfuðborgarsvæðinu, 34,6%. Nýtingin á Norðurlandi og Austurlandi lækkaði ekki mikið frá fyrra ári en nýtingin í júlí í fyrra var 78,5% á Norðurlandi og 80,8% á Austurlandi. Á öðrum svæðum landsins dróst nýtingin mun meira saman. Mest dróst hún saman á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK