Sjóvá og Pink Iceland hlutu jafnréttisverðlaun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sést hér á …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sést hér á miðri mynd með þeim Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvár, og Ágústu Bjarnadóttur, forstöðumanni mannauðs félagsins. Ljósmynd/Aðsend

Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2020 voru í dag veitt tryggingafélaginu Sjóvá, en mannréttindi eru mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. Á hverju ári eru skilgreindar markvissar aðgerðir í jafnréttismálum innan fyrirtækisins. Hermann Björnsson forstjóri og Ágústa Bjarnadóttir forstöðumaður mannauðs veittu verðlaununum viðtöku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins. 

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

Sjóvá var fyrsta fyrirtækið til að fá 10 á kynjakvarða Kauphallarinnar GEMMAQ og hefur náð góðum árangri í að jafna kynjahlutföll með skýrri stefnu og skipulögðum ákvörðunum um ráðningar.

Stjórnendur eru sannfærðir um að áhersla á jafnrétti skilar rekstrarlegum ávinningi og horfa þau á jafnréttismál sem hluta af aðgerðum til að auka arðsemi. Sjóvá sýnir mikið frumkvæði með því að bjóða upp á framlengingu fæðingarorlofs sem nemur sex vikum á 80% launum. Jafnréttissýn og árangur Sjóvár er hvetjandi fyrir önnur fyrirtæki og hefur Sjóvá tekið mjög virkan þátt í umræðum um jafnréttismál.  

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sést hér á …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sést hér á miðri mynd. Með henni eru, frá vinstri, Eva María Þórarinsdóttir Lange, eigandi og framkvæmdastjóri Pink Iceland, og Birna Hrönn Björnsdóttir og Hannes Páll Pálsson, sem eru meðeigendur. Ljósmynd/Aðsend

Auk þessa urðu þau nýmæli í ár að sérstök sprotaverðlaun voru veitt fyrirtækinu Pink Iceland, sem jafnframt er eina ferðaþjónustu- og viðburðafyrirtæki landsins sem einblínir á þarfir og menningu hinsegin fólks. Það var Eva María Þórarinsdóttir Lange, eigandi og framkvæmdastjóri Pink Iceland sem tók við verðlaunum, ásamt meðeigendum sínum, þeim Birnu Hrönn Björnsdóttur og Hannesi Páli Pálssyni, segir enn fremur í tilkynningu.  

Í rökstuðningi dómnefndar um Pink Iceland segir meðal annars:

Skilningur á jafnréttishugtakinu er víður. Fyrirtækið einblínir ekki aðeins á tvö kyn heldur er áhersla á það mannlega, að við eigum öll að búa við jafnrétti, virðingu og frelsi. Mannréttindastefna fyrirtækisins er skýr bæði innan fyrirtækisins og út á við. Áhersla er lögð á að stefna og vinnubrögð birgja samræmist stefnu fyrirtækisins. Þá velur fyrirtækið samstarfsaðila sem vinna eftir gæða-, umhverfis- og siðferðilegum kröfum. Fyrirtækið býður samstarfsaðilum sínum upp á fræðslu um jafnréttismál og er þannig hvetjandi afl í að skapa aukið jafnrétti á vinnumarkaðnum og í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK