Fasteign Sóltúns seld

Í Sóltúni dveljast 92 manns öllu jöfnu.
Í Sóltúni dveljast 92 manns öllu jöfnu. Eggert Jóhannesson

Í byrjun árs gekk eitt stærsta fasteignafélag landsins, Reginn hf., frá kaupum á 90% hlut í hjúkrunarheimilinu Sóltúni við samnefnda götu í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fylgdi ársreikningi Regins í fyrradag.


Nánar tiltekið keypti Reginn 90% hlut í félaginu Sóltúni ehf. af félaginu Öldungi hf. en Sóltún ehf. er eignarhaldsfélag utan um fasteignina. Öldungur hefur annast rekstur hjúkrunarheimilisins á grundvelli þjónustusamnings við íslenska ríkið frá árinu 2002 og hefur hingað til jafnframt átt fasteignina.

Sami rekstur

Í tilkynningu frá Regin kemur fram að kaupin muni ekki hafa nein áhrif á rekstur og starfsemi hjúkrunarheimilisins. Framvegis leigir rekstraraðilinn, Öldungur, húsnæðið af Regin, sem er nú aðaleigandi þess. Leigusamningurinn er á milli Öldungs og Sóltúns ehf. og hann breytist ekki. Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sóltúni, staðfestir þetta í samtali við Morgunblaðið. „Í stuttu máli er engin breyting hjá Öldungi,“ segir hún.


Öldungur er í eigu Íslenskrar fjárfestingar, sem er í eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar, sem teljast til umsvifamestu fjárfesta landsins. Þeir eru áfram við stjórnvölinn í rekstrarfélaginu, sem, eins og áður segir, á enn 10% hlut í fasteigninni.

Vilja frekari uppbyggingu

Samhliða sölu Öldungs hf. á Sóltúni til Regins segjast félögin vera búin að gera með sér samkomulag um að starfa frekar að uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Þar mun „sérfræðiþekking og reynsla Öldungs nýtast við rekstur hjúkrunarheimila en reynsla og þekking Regins á rekstri og viðhaldi fasteigna. Með því er kominn nýr valmöguleiki fyrir ríki og sveitarfélög til að sinna uppbyggingu og rekstri hjúkrunarheimila á Íslandi sé vilji til staðar,“ segir í tilkynningu.

Áhugi á samstarfi hins opinbera við einkaaðila

Eignasafn fasteignafélagsins Regins samanstendur af atvinnuhúsnæði. Í lok árs 2020 átti félagið 115 fasteignir og heildarfermetrafjöldinn var 378 þúsund fermetrar. Félagið er skráð í Kauphöll Íslands.

Í gögnum frá aðalfundi Regins 2019 er fjallað um að áhugi sé fyrir því að stefna að fleiri samstarfsverkefnum á milli opinberra aðila og einkaaðila, svokölluðum PPP-verkefnum, sem heita svo vegna enska titilsins Public-Private Partnership. Samkvæmt þessu hafa þeir nú þegar hafið sókn á því sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK