Reynir ekki aftur við stjórnarsæti í Sýn - Þrjár konur í framboði

mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls átta manns hafa gefið kost á sér til stjórnarsetu í Sýn, en hluthafafundur verður haldinn í félaginu á fimmtudag í næstu viku, 20. október. Fyrir fundinum liggur tillaga um að binda endi á núverandi kjörtímabil stjórnar félagsins, sem kjörin var 31. ágúst sl., og kjósa í kjölfarið nýja stjórn.

Þau sem gefa kost á sér eru Hákon Stefánsson, Helen Neely, Jóhann Hjartarson, Jón Skaftason, Páll Gíslason, Rannveig Eir Einarsdóttir, Sesselía Birgisdóttir og Sigmar Páll Jónsson.

Þau Jóhann Hjartarson, Jón Skaftason, Páll Gíslason, og Sesselía Birgisdóttir sitja í stjórn félagsins nú þegar, en Petrea Ingileif Guðmundsdóttir – sem kjörinn var stjórnarformaður eftir hluthafafund í lok ágúst sl. – gefur sem kunnugt er ekki kost á sér.

Jóhann fékk á síðasta hluthafafundi flest atkvæði, nærri 25% atkvæða. Næstur á eftir honum kom Páll með tæp 23%, Jón fékk 22,5% en þær Petrea Ingileif og Sesselja Birgisdóttir fengu aðeins 1% atkvæða. Vegna kynjakvóta tóku Petrea Ingileif og Sesselja sæti í stjórn ásamt Jóhanni, Páli og Jóni. Nú eru þrjár konur í kjöri þannig að enginn aðili verður sjálfkjörinn í stórn.

Mikið umrót hefur verið um stjórnarsetu í Sýn eftir að fjárfestingafélagið Gavia, í samstarfi við fleiri aðila, keypti 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, sem þá var forstjóri Sýnar, í byrjun júlí. Reynir Grétarsson, oft kenndur við Creditinfo, fór fyrir hópnum ásamt Jóni Skaftasyni. Þeir Reynir og Jón gáfu báðir kost á sér í stjórn fyrir hluthafafundinn sem haldinn var í lok ágúst, en aðeins Jón náði kjöri.

Athygli vekur að Reynir gefur ekki kost á sér í stjórn nú. Aftur á móti gefur einn nánasti samstarfsmaður hans, Hákon Stefánsson, framkvæmdastjóri InfoCapital (sem er fjárfestingarfélags Reynis) og fv. framkvæmdastjóri hjá Creditinfo á Íslandi og í Þýskalandi, kost á sér. Þá gefur lögmaðurinn Sigmar Páll Jónsson kost á sér í stjórn. Hann er náinn samstarfsmaður Andra Gunnarssonar, sem unnið hefur með Gavia-hópnum, í sumar.

Þá gefur Helen Neely fjárfestir jafnframt kost á sér. Þá gefur Rannveig Eir Einarsdóttir, orstjóri Reirs Verks, jafnframt kost á sér. Eiginmaður hennar, Hilmar Þór Kristinsson, gaf kost á sér á fyrrnefndum hluthafafundi í ágúst en náði ekki kjöri.

Þá gefa kost á sér í varastjórn þau Daði Kristjánsson, Salóme Guðmundsdóttir og Sólveig Gunnarsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK