Hver sigrar hjörtu Evrópubúa í kvöld?

Úrslitakvöld Eurovision fer fram í kvöld og sjaldan hefur jafnmikil …
Úrslitakvöld Eurovision fer fram í kvöld og sjaldan hefur jafnmikil óvissa ríkt um mögulegan sigurvegara. Ljósmynd/Thomas Hanses

Hver vinnur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í kvöld? Þetta er án efa spurning dagsins og henni er ekki auðsvarað þar sem úrslitakvöldið í ár er talið eitt það ófyrirsjáanlegasta fyrr og síðar að mati margra Eurovision-sérfræðinga.

Verður það uppáhald veðbankanna frá upphafi, hin ísraelska Netta sem mun trylla (Evrópu) heimsbyggðina eða mun hástökkvari síðustu daga, hin kýpverska Beyoncé, eða Eleni Foureira, standa uppi sem sigurvegari? Eða verður það kannski einhver allt annar?

Eleni varpaði glimmersprengju á sviðið þegar hún söng lagið Fuego íklædd rauðum og gulum glimmersamfestingi sem sumir vilja meina að sé málaður á hana, svo þröngur er hann. Veðbankar tóku ástfóstri við hana eftir flutninginn og stökk hún upp fyrir Nettu og hefur vermt fyrsta sætið síðan.

Ef spá veðbankanna er skoðuð áfram mun Írland komast á pall og hreppa þriðja sætið. Ryan O´Shaughnessy var ekki talinn líklegur til afreka fyrr í vikunni en írska atriðið prýddi fyrirsagnir fjölmiðla víða um heim eftir undankeppnina fyrir þær sakir að kínverska ríkissjónvarpið klippti atriðið út úr útsendingu sinni af keppninni.

Hvers vegna? Jú, vegna þess að með Ryan á sviðinu eru dansararnir Alan McGrath og Kevin O’Dwyer sem túlka samband samkynhneigðs pars. Slíkt er bannað samkvæmt kínverskri reglugerð og því var atriðið afmáð úr kínversku útgáfu Eurovision.

Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) og Eurovision-aðáendur um heim allan fordæmdu háttsemi kínverska ríkissjónvarpsins og riftu samtökin útsendingarsamningi sínum við Kínverja. „Þessi framkoma er ekki í samræmi við gildi keppninnar um að fagna fjölbreytileikanum,“ segir í tilkynningu á heimasíðu keppninnar.

Ákvörðunin hefur fengið mikla og jákvæða athygli hjá aðdáendum keppninnar sem veðbankar taka með í reikninginn og því eru írsku strákarnir þrír komnir í þriðja sætið.

Mercy, hjónaást eða sænskt Europopp?

Franska laginu hefur verið spáð ofarlega frá því fyrstu spár birtust. Skilaboð Jean-Karl Lucas og Emilie Satt, hjónanna sem flytja lagið, eru pólitísk og mjög skýr: Tökum á móti fleiri flóttamönnum. Þau mynda dúettinn Madame Monsieur og flytja lagið Mercy sem sækir innblástur sinn til sannra atburða þegar kona fæddi barn um borð í björgunarbáti fyrir flóttamenn.

Ieva Zasimauskaite syngur um fegurðina sem felst í því að eldast og var ekki spáð neinu sérstöku gengi til að byrja með. Atriðið er frekar látlaust og umtalaður fermingarkjóll hennar þótti ekki hjálpa henni. Þegar líða fór á lagið náði hún hins vegar athygli fólks og þegar eiginmaður hennar birtist „óvænt“ við hlið hennar í enda lagsins náði hún að sigra hjörtu Evrópubúa og flaug í úrslitin.

Litháísku hjónin sameinast á brúnni.
Litháísku hjónin sameinast á brúnni. Ljósmynd/Thomas Hanses

Henni er nú spáð 5. sæti og hoppaði upp fyrir dansandi Svíann Benjamin Ingrosso og ítölsku söngvarana og lagahöfundana Ermal Meta og Fabrizio Moro.

Þórunn Erna Clausen, lagahöfundur íslenskra framlagsins, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að litháíska framlagið snerti hana djúpt vegna þátttöku eiginmanns söngkonunnar í laginu. „Lit­há­en fær mig til að gráta eft­ir svona fimm sek­únd­ur, en það er ef­laust vegna þess að ég er búin að missa ást­ina mína í líf­inu,“ segir Þórunn. Eig­inmaður hennar, Sig­ur­jón Brink, lést skyndi­lega af völd­um heila­blóðfalls árið 2011.

Veðbankarnir segja ekki alla söguna

Það má hins vegar ekki gleyma því að veðbankar eru ekki alltaf sannspáir. Það sannaðist í fyrra þegar hinum ít­alska Francesco Gabb­ani var spáð sigri með lagið Occidentali´s Karma en hann þurfti svo að sætta sig við sjötta sæti.

Af öðrum leiðum til að meta sigurlíkur má nefna hversu oft leitað hefur verið að framlögum landanna á leitarsíðum Google. Samkvæmt þeim tölum á Netta sigurinn vísan og fast á hæla hennar kemur Alexander Rybak, sigurvegari frá árinu 2009 sem snýr nú aftur með framlagi Noregs sem kennir okkur hvernig á að semja lag.

Tékkneska framlagið hefur einnig verið „gúgglað“ ótal sinnum sem og Kýpur. Veðbankar og Google eru því ekki sammála um sigurvegarann í ár. Það getur því enn þá allt gerst.

Gleðin hefst klukkan 19 og venju samkvæmt verður sýnt frá keppninni á Rúv. Íslendingar verða að sætta sig við það að eiga ekki framlag í úrslitunum en við getum treyst á að Edda Sif Pálsdóttir stigakynnir Íslands verði landi og þjóð til sóma. Þá verður áhugavert að sjá hvaða land íslenska þjóðin vill sjá á toppnum. Ætli frændhyglin geri vart við sig og dönsku víkingarnir njóti góðs af? 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson