Hefur ekkert breyst?

„Unnur Ösp og Hilmir Snær gera eins vel og hægt …
„Unnur Ösp og Hilmir Snær gera eins vel og hægt er miðað við þann efnivið sem þau hafa úr að moða, sem er miklum mun rýrari en sá sem stóð til boða á stóra sviði sama leikhúss fyrir tæpum fjórum árum. Sársaukinn og örvæntingin sem Ibsen nær svo meistaralega að miðla í upprunalega leikritinu vék í framhaldsverki Hnath fyrir lagatækni sem hreyfir lítið sem ekkert við hjartanu,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um Dúkkuheimili, 2. hluta. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Höfundurinn teflir í verkinu saman persónum sem tala eins og nútímafólk, en upplifa atburðina í kringum aldamótin 1900. Slíkt stefnumót í tíma og rúmi hefði getað verið spennandi, en verður það því miður ekki í meðförum Hnath. Til þess er textinn, í annars ágætri þýðingu Sölku Guðmundsdóttur, alltof bragðdaufur, yfirborðslegur og klisjukenndur auk þess sem allan undirtexta skortir. Höfundinum tekst aldrei að fara á dýptina í samtölum persóna um hjónabandið sem sáttmála og öfugt við Dúkkuheimili Henriks Ibsen fá persónur framhaldsins heldur engin tækifæri til að fara í flókið tilfinningaferðalag fyrir augum áhorfenda. Afstaða persóna breytist lítið sem ekkert í framvindu verksins og undir lokin hefur ekkert breyst,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um Dúkkuheimili, 2. hluta eftir Lucas Hnath, en leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Í leikdómnum rifjar Silja upp hversu mikla athygli hurðaskellur Nóru undir lok DúkkuheimilisHenriks Ibsen hafi vakið þegar leikritið var frumsýnt í Kaupmannahöfn í árslok 1879, en á þeim tíma var fáheyrt að kona teldi skyldurnar við sjálfa sig sem manneskju vera mikilvægari en skyldurnar sem eiginkona og móðir.

„Ýmsir höfundar hafa í gegnum tíðina velt vöngum yfir hvað biði Nóru að hjónabandi loknu. Þeirra á meðal er Nóbelsverðlaunaskáldið Elfriede Jelinek sem í leikriti frá 1979 sá fyrir sér að Nóra yrði undir í hinu kapítalíska feðraveldi sem starfskona í verksmiðju og ástkona ríks manns meðan Þorvaldur fengi sér nýja brúði á dúkkuheimili sitt. Ekkert framhaldsleikritanna um Nóru hefur þó hlotið viðlíka vinsældir og leikrit bandaríska leikskáldsins Lucasar Hnath sem frumsýnt var vorið 2017 og rataði fljótt á Broadway þar sem uppfærslan hlaut átta Tony-verðlaun, m.a. fyrir besta leikrit. Samkvæmt nýlegri úttekt tímaritsins American Theater verður leikrit Hnath það mest leikna í Bandaríkjunum á yfirstandandi leikári, en það var Evrópufrumsýnt í Borgarleikhúsinu í Stokkhólmi sl. föstudag.

Í verki sínu lætur Hnath Nóru (Unnur Ösp Stefánsdóttir), árið 1894, snúa aftur til heimilisins sem hún yfirgaf 15 árum áður. Nóra hefur ekki látið heyra frá sér í öll þessi ár. Henni hefur vegnað vel og skapað sér nafn sem umdeildur en samt vinsæll rithöfundur. Líkt og ensku Brontë-systurnar hefur hún valið að skrifa kvennabókmenntir sínar undir dulnefni. Og líkt og hjá sænsku skáldkonunni og kvenréttindafrömuðinum Fredriku Bremer hafa skrif hennar um kúgun kvenna í samfélaginu, þó einkum innan ramma hjónabandsins, vakið mikla athygli. Kvenkyns lesendur Nóru hafa komið sér úr hamingjusnauðum hjónaböndum fyrir hvatningu hennar og af þeim sökum er Nóra komin í ákveðin vandræði. Meðal yfirgefinna eiginmanna er dómari sem komist hefur að snoðum um að Nóra er enn lögformlega gift Þorvaldi Helmer (Hilmir Snær Guðnason) – nokkuð sem kom henni í opna skjöldu. Sjálf treysti hún nefnilega á að Þorvaldur myndi sækja um skilnað á sínum tíma og hefur því lifað sem fráskilin kona, átt fjölda elskhuga og skrifað undir samninga sem eru lögum samkvæmt ógildir án undirskriftar eiginmannsins.

Tilefni heimsóknar hennar er því að fara þess á leit að Þorvaldur komi öllum í skilning um að þau hafi ekki lifað sem hjón síðustu 15 árin og sæki formlega um skilnaðinn, enda auðveldara fyrir hann þar sem hann þarf ekki að geta sannað illa meðferð eða svik makans líkt og lög þess tíma krefjast af konum.

Verkið byggist að mestu upp á tveggja manna senum þar sem Nóra miðlar efasemdum sínum um hjónabandið í samtölum við Þorvald, Önnu Maríu fyrrverandi fóstru sína (Margrét Helga Jóhannsdóttir) og loks Emmu gjafvaxta dóttur (Ebba Katrín Finnsdóttir). Mun minna fer fyrir gagnrýni á feðraveldið, samfélagsgerðina og lögin sem héldu konum niðri – og gera enn víða um heim. Nóru gremst að fóstran, sem ól fyrst hana upp og síðan börnin hennar, skuli ekki sjá líkindin milli þeirra þar sem Anna María yfirgaf sjálf eigið barn til að geta hugsað um börn Nóru. Hér skautar leikskáldið léttilega yfir aðstöðumun kvennanna tveggja sem birtist í fjárhagslegu baklandi þeirra – eða skorti þar á. Þó að gaman hafi verið að sjá Margréti Helgu aftur á leiksviðinu var heldur ótrúverðugt að fyrir aðeins 15 árum hefði hún yfirgefið eigið barn til að ala upp börn Helmer-hjónanna.

Í uppgjöri mæðgnanna reynir Nóra að vara Emmu við því að hamingjuna sé ekki að finna í hjónabandinu, en Emma þráir ekkert heitar en eðlilegt heimilislíf sem hún sakar móður sína um að hafa svipt sig. Emma er samt ekki ólíkari móður sinni en svo að hún er tilbúin að fremja skjalafals til að tryggja hamingju sína. Ebba Katrín gerði sitt besta til að gæða Emmu lífi, en fær ekki mikla hjálp frá leikskáldinu sem lætur hana sífellt vera að rifja upp hluti sem hún í hinu orðinu bendir réttilega á að hún geti að sjálfsögðu ekki munað sökum ungs aldurs þegar Nóra fór.

Í meðförum Hnath hefur Þorvaldur á þeim 15 árum sem liðin eru síðan Nóra gekk út öðlast ótrúlegt innsæi í vanda hjónalífs þeirra og er merkilega tilbúinn að ræða málin. Hann áfellist hana fyrir að hafa stungið af í stað þess að vinna sameiginlega úr vanda þeirra. Þegar kemur að þeim sinnaskiptum sem Þorvaldur tekur í verkinu í von um betri eftirmæli frá Nóru hefði leikskáldið þurft að undirbyggja þau mun betur.“

Silja fer fögrum orðum um glæsilega búninga Stefaníu Adolfsdóttur, hráa leikmynd Barkar Jónssonar, frábæra lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar, ágenga tónlist Unu Sveinbjarnardóttur og táknrænan dans Sveinbjargar Þórhallsdóttur. 

„Snemma í verkinu segist Nóra vera „allt önnur manneskja“ en þegar hún gekk út af heimilinu 15 árum áður. Markmið hennar var þá að læra betur á reglur hins karllæga samfélags sem skipað höfðu henni á bekk sem viðfangi og meinuðu henni að falsa undirskrift til að bjarga lífi eiginmanns síns. Erfitt er að trúa því að sú sjálfstæða og sjálfsörugga Nóra sem birtist áhorfendum í upphafi framhaldsverksins hafi ekkert lært af samskiptum sínum við Níels Krogstad í upprunalega leikritinu og hafi aldrei gengið úr skugga um að allir pappírar væru í lagi, enda lykillinn að frelsi hennar og því lífi sem hún vill lifa. Þegar við bætist að innri rökvísi verksins virðist ekki ganga upp er úr vöndu að ráða fyrir leikhópinn undir stjórn Unu Þorleifsdóttur.

„Í heild virtist leikurinn agaður fram að öskuruppgjöri Helmer-hjónanna. Unnur Ösp og Hilmir Snær gera eins vel og hægt er miðað við þann efnivið sem þau hafa úr að moða, sem er miklum mun rýrari en sá sem stóð til boða á stóra sviði sama leikhúss fyrir tæpum fjórum árum. Sársaukinn og örvæntingin sem Ibsen nær svo meistaralega að miðla í upprunalega leikritinu vék í framhaldsverki Hnath fyrir lagatækni sem hreyfir lítið sem ekkert við hjartanu,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson