Samfélag Íslendinga á Tenerife þétt og gott

Tenerife | 8. september 2020

Samfélag Íslendinga á Tenerife þétt og gott

Inga Ragna Skúladóttir missti manninn sinn í ársbyrjun, en saman opnuðu þau bar á síðasta ári. Inga Ragna Skúladóttir flutti ásamt manni sínum, Guðmundi Guðbjartssyni, Gumma, til Tenerife í maí 2019 þar sem þau opnuðu ölstofuna Bar-Inn.

Samfélag Íslendinga á Tenerife þétt og gott

Tenerife | 8. september 2020

Inga Ragna Skúladóttir rekuri Bar-Inn á Tenerife.
Inga Ragna Skúladóttir rekuri Bar-Inn á Tenerife. Ljósmynd/Guðrún Vala Elísdóttir

Inga Ragna Skúladóttir missti manninn sinn í ársbyrjun, en saman opnuðu þau bar á síðasta ári. Inga Ragna Skúladóttir flutti ásamt manni sínum, Guðmundi Guðbjartssyni, Gumma, til Tenerife í maí 2019 þar sem þau opnuðu ölstofuna Bar-Inn.

Inga Ragna Skúladóttir missti manninn sinn í ársbyrjun, en saman opnuðu þau bar á síðasta ári. Inga Ragna Skúladóttir flutti ásamt manni sínum, Guðmundi Guðbjartssyni, Gumma, til Tenerife í maí 2019 þar sem þau opnuðu ölstofuna Bar-Inn.

Inga segir að þau hafi verið búin að fá nóg af því að geta aldrei leyft sér neitt á Íslandi, að eiga bara rétt fyrir húsnæði og mat. Eins hafi Gummi verið orðinn lélegur í skrokknum og leið mun betur í hitanum á Tene. En sorgin knúði dyra og varð Gummi bráðkvaddur 21. janúar sl.

„Maðurinn minn var besti vinur minn og sálufélagi, einstakur ljúflingur. Hann var vert af guðs náð og það sögðu allir sem komu á Bar-Inn til hans. Hann var með sykursýki 1, en passaði sig ekki nógu vel að borða reglulega og huga að heilsunni svona almennt,“ segir Inga við Morgunblaðið.

Hún segir Gumma hafa átt afskaplega erfitt með að taka sér frí frá barnum og aldrei viljað hafa lokað. „Þetta endaði með því að blóðsykurinn fór allur í rugl og hann lenti inni á spítala í nóvember, var á gjörgæslu í fjóra daga og á almennri deild í sex daga. Þetta varð til þess að hann samþykkti að taka sér einn frídag í viku þannig að við fórum að hafa lokað á mánudögum.“

Eftir þetta kom jólavertíðin og síðan handboltinn. Mánudaginn 20. janúar var lokað, Gummi eitthvað lasinn og tók daginn rólega. „Morguninn eftir var hann svo slappur að hann treysti sér ekki á Bar-Inn en tók ekki annað í mál en að ég færi þar sem það var landsleikur í handbolta og ekki mátti bregðast gestunum sem ætluðu að horfa á leikinn hjá okkur,“ segir Inga.

Vissi að eitthvað var að

Hún ræddi við Gumma í síma skömmu fyrir leik og sagðist hann þá vera að hressast og kæmi bráðum. Þegar hann lét svo ekki sjá sig hringdi Inga heim en hann svaraði ekki. „Þá vissi ég að eitthvað væri að, rauk í það að „henda“ öllum út af barnum, lokaði og hljóp heim, en við bjuggum í næsta húsi þar sem ég bý enn.“ Þegar Inga opnaði dyrnar sá hún Gumma liggjandi á gólfinu og hringdi strax í 112, sem því miður var of seint, því hann var látinn. Hún hefur ennþá ekki fengið opinbera dánarorsök, þrátt fyrir að hafa margbeðið um hana. Þar sem líkindin með þessu og fyrri veikindunum eru mikil reiknar hún með að það sama hafi gerst aftur, þ.e. blóðsykurinn rokið upp.

„Í þetta sinn var ég bara ekki á staðnum til að hringja strax á sjúkrabíl. Vinir mínir, sem verið höfðu á barnum, höfðu samband til að leita frétta og voru komnir til mín á sama tíma og sjúkrabíllinn renndi í hlað. Þeir sátu svo hjá mér allt kvöldið og næstu daga og vikur skiptust þeir á um að hugsa um mig. Þarna kom í ljós hversu gott og þétt Íslendingasamfélagið hérna er. Ef eitthvað kemur upp á hjá fólki eru allir reiðubúnir að hjálpa.“

Þetta var barinn hans Gumma

Þrátt fyrir áfallið og sorgina finnst Ingu yndislegt að búa á Tene. Hún er með vefjagigt og hitinn gerir henni gott. Auk þess á hún góðan hóp vina sem hún umgengst reglulega. Áfram sér hún um Bar-Inn, sem er lítill og huggulegur staður með nokkur sjónvörp og hægt að sjá alla leiki sem hugurinn girnist. Þar má líka sjá íslenska sjónvarpið og hægt að ganga að íslensku fréttunum vísum.

„Ég verð að reyna að halda barnum gangandi, þar sem þetta var jú barinn hans Gumma,“ bætir hún við.

Áður en Covid skall á var barinn yfirleitt opnaður upp úr kl. 14 en núna opnar Inga kl. 16 og er með opið til kl. 22:30 á virkum dögum, lengur ef einhverir gestir eru á staðnum. Ef staðurinn er tómur á þessum tíma þá lokar hún. Inga hefur leyfi til að hafa gesti á veröndinni til miðnættis. Opið er fimm daga í viku eins og er, en lokað á sunnudögum og mánudögum.

„Því miður hefur Covid gert mikinn usla hér á eyjunni,“ segir Inga og heldur áfram: „Ferðamennskan hefur nánast lagst af og afleiðingarnar eru skelfilegar. Fólk sem starfaði í ferðatengdum iðnaði á ekki í sig og á, margir fá litlar sem engar bætur og heilu fjölskyldurnar svelta. Eyjarnar munu ekki lifa það af ef túrisminn kemst ekki í gang fljótlega.“

Inga segist alltaf passa sig á að kaupa aukamat í „gjafakörfu“ þegar hún verslar, en við sumar verslanir er safnað mat handa bágstöddum sem er síðan er útdeilt til þurfandi. Inga segir að veiran og afleiðingar hennar hafi haft mikil áhrif, t.d. sé mánaðarinnkoma á barnum núna svipuð því sem áður kom inn á einum góðum degi. „Ég næ ekki inn fyrir rafmagnsreikningnum og hvað þá leigunni, en ég held að ég geti borgað með barnum út september. Ef túristarnir láta ekki sjá sig er þetta auðvitað búið spil, ef enginn kemur núna verður ekkert hér næsta ár til að heimsækja.“

Hótelin hrundu

Inga segir að yfirvöld á Tenerife hafi tekið mjög vel á þessari veiru. Reglurnar séu strangar, viðurlög eru við brotum og lögreglan fylgist með. Auk þess sé það þannig að ef ferðamaður greinist með veiruna fær hann fría læknisaðstoð, uppihald í einangrun og greitt fyrir heimferð. Hið opinbera er með þessu að reyna að örva túrismann enda vita þeir að án ferðamanna lifa eyjarnar ekki af. Í útgöngubanninu voru engir ferðamenn, enda lokuðu yfirvöld eyjunum.

„Hingað fékk enginn að koma nema heilbrigðisstarfsfólk í nokkrar vikur. Um leið og eyjan var opnuð 1. júlí byrjuðu Bretarnir að koma, nokkrir Íslendingar létu sjá sig hinn 11. júlí og við fylltumst bjartsýni. Allt virtist vera á uppleið, en svo settu Bretar á sóttkví fyrir alla sem komu frá Spáni og settu eyjarnar þar undir, þó að ástandið á eyjunum sé ekki neitt í líkingu við meginlandið. Bókanir á hótelin hrundu og þau hótel sem ætluðu að opna í ágúst hættu við.“

Hún segir þau þó heppin í Los Cristianos, þar sem flest er opið, en margir staðir séu lokaðir á amerísku ströndinni.

„Ef einhver hyggur á Tenerife-ferð þá segi ég bara: Endilega komdu sem fyrst og því fyrr því betra. Það er nefnilega ekkert víst að það verði neitt um að vera á Tenerife næsta ár ef allir ætla að bíða þangað til með að koma.“

Tómlegt um að litast á Tenerife.
Tómlegt um að litast á Tenerife. Ljósmynd/Guðrún Vala Elísdóttir
mbl.is