Mjög fáir hafa afþakkað bólusetningu

Mjög fáir hafa afþakkað bólusetningu

Mjög fáir hafa afþakkað bólusetningu

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Mjög fáir hafa afþakkað bólusetningu gegn Covid-19. Í þeim tilvikum sem fólk hefur afþakkað er það helst ef það á ekki heimangengt, er illa fyrirkallað eða veikt, að sögn fram­kvæmda­stjóra hjúkr­un­ar Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Heilbrigðisstarfsfólk, framlínustarfsfólk og starfsfólk hjúkrunarheimila hefur ekki afþakkað, eða í það minnsta ekki látið heilsugæsluna vita af því. 

Ragnheiður segist ekki vita til þess að framlínustarfsfólk hafi afþakkað …
Ragnheiður segist ekki vita til þess að framlínustarfsfólk hafi afþakkað bólusetningu þó vissulega hafi ekki allir mætt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það kemur alveg fyrir að fólk á ekki heimangengt, er veikt eða eitthvað illa fyrirkallað,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „En þá er því velkomið að koma næst þegar það er opið hús,“ bætir Ragnheiður við. 

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Lögreglan

Búa sig undir veikindi

Hún segir að bólusetning hafi gengið vel, í dag hafi fólk sem er 90 ára og eldra fengið seinni sprautuna af bóluefni gegn Covid-19. Þá hafi 80 manns úr aldurshópnum mætt í dag í fyrstu bólusetningu en það fólk átti ekki heimangengt þegar aldurshópurinn fékk sína fyrstu sprautu. Á föstudag verður starfsfólk hjúkrunarheimila bólusett með bóluefni AstraZeneca. Sú bólusetning klárast á föstudag í næstu viku. 

Ragnheiður segir að það virðist vera sem svo að stórt hlutfall þeirra sem fá bóluefni AstraZeneca veikist eftir fyrstu sprautuna. Flestir ná sér þó eftir sólarhring. 

„Fólk er alveg að búa sig undir það. Við bólusetjum á föstudegi svo flestir fara í helgarfrí eftir bólusetninguna. Flestir eru að skipuleggja sig þannig að það sé ekki mikið um að vera hjá þeim yfir helgina og takast bara á við þetta,“ segir Ragnheiður. 

Heilsugæslan hefur ráðlagt fólki sem fær bóluefni Astra Zeneca að taka verkjatöflur að kvöldi bólusetningardags og jafnvel morguninn eftir. 

Bólusetja 80+ í næstu viku

Í næstu viku koma skammtar af bóluefni Pfizer/BioNTech til landsins og þá hefst bólusetning þeirra sem eru 80 ára og eldri. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nær ekki að bólusetja hópinn í heild í næstu viku. Skammtarnir duga líklega fyrir þá sem eru fæddir 1938 og fyrr. Til þess að bólusetja allan hópinn þarf Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins um 5.000 skammta. 

mbl.is