Hefði viljað sjá aðgerðir fyrr

Kórónuveiran COVID-19 | 14. október 2021

Hefði viljað sjá aðgerðir fyrr

Helsta fyrirstaða Landspítala að takast á við aukinn fjölda innlagna vegna kórónuveirusmita liggur fyrst og fremst í mönnun, að sögn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur, starfandi forstjóra Landspítala.

Hefði viljað sjá aðgerðir fyrr

Kórónuveiran COVID-19 | 14. október 2021

Forstjóri Landspítala Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.
Forstjóri Landspítala Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helsta fyrirstaða Landspítala að takast á við aukinn fjölda innlagna vegna kórónuveirusmita liggur fyrst og fremst í mönnun, að sögn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur, starfandi forstjóra Landspítala.

Helsta fyrirstaða Landspítala að takast á við aukinn fjölda innlagna vegna kórónuveirusmita liggur fyrst og fremst í mönnun, að sögn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur, starfandi forstjóra Landspítala.

„Helsti akkilesarhæll okkar er mönnun. Aukin smit kalla á fleiri innlagnir, þetta helst allt í hendur. Þegar það fjölgar á covid göngudeildinni þá þurfum við að færa mannskap til. Við þurfum að finna út úr því hvernig við mönnum ef það eru aukin smit í samfélaginu,“ segir Guðlaug Rakel.

Boltinn hjá spítalanum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur gefið til kynna að geta Landspítala til að takast á við aukin kórónuveirusmit í samfélaginu sé lykilatriði þegar kemur að því að meta hvort óhætt sé að leggjast í tilslakanir. Boðað hefur verið til fundar á morgun þar sem sóttvarnalæknir mun ræða við forsvarsmenn spítalans um stöðu stofnunarinnar. 

Upplifir þú að ákvarðanir um tilslakanir liggi á ykkar herðum?

„Bæði og. Bolmagn spítalans er náttúrulega eðlilegur hluti af þessu samtali sem þarf að eiga sér stað. Við þurfum að svara því eins og við getum. Við þurfum bæði að vera raunsæ og varkár.“

Staðan á spítalanum góð núna

Nokkuð er liðið frá því að Landspítali var tekinn af hættustigi og færður á óvissustig. Þrír liggja nú inni á spítala vegna Covid-19, þar af einn á gjörgæslu. Þá eru 192 börn og 281 fullorðinn á covid göngudeildinni.

Að sögn Guðlaugar er staðan á spítalanum góð hvað varðar Covid-19. „Við getum vel sinnt stöðunni eins og hún er núna. Við erum í þokkalegu standi eins og staðan er í dag. Engu að síður er áhættan alltaf til staðar ef það eru miklar tilslakanir. Það er áhætta sem við verðum að meta.“

Óljóst hver afrakstur aðgerðanna verði

Í minnisblaði sem að forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra sendu á ríkisstjórn Íslands á þriðjudag er gefið til kynna að tilslakanir séu í kortunum. Er það meðal annars rökstutt í ljósi þess að á næstu vikum muni afrakstur þeirra aðgerða, sem gripið var til í þeim tilgangi að efla viðnámsþrótt heilbrigðiskerfisins, skila sér.  

Aðgerðirnar sem m.a. er kveðið á um í minnisblaðinu eru „styrking heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu, tímabundin fjölgun legurýma á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum á suðvesturhorni landsins, undirbúningur varanlegrar fjölgunar legurýma á LSH og styrking sjúkraflutninga til að meðhöndla sjúklinga í heimahúsum þegar það á við, í stað flutnings á bráðamóttöku.

Því til viðbótar má nefna að Sjúkratryggingar eru að ganga frá samningi við hjúkrunarheimilið Eir sem mun létta undir Landspítala með því að annast Covid-smitaða aldraða sem ekki þarfnast sjúkrahúsþjónustu.“

Búist þið við að þessar aðgerðir muni skila miklum árangri? 

„Það er bara mjög erfitt að svara þessu. Í raun og veru hefði maður verið til í að sjá þetta gerast fyrr. Það er bara verið að vinna í því alla daga að bæta stöðuna, fjölga rúmum og bæta flæði. Starfsemi spítalans er þannig að hún getur breyst á einu augabragði. Fyrirsjáanleikinn er ekkert mjög mikill.“

Spurð að lokum hvort hún sjái fram á að spítalinn geti gefið grænt ljós á frekari tilslakanir á fundinum með Þórólfi á morgun, segir hún það enn óljóst. „Ég ætla bara að leyfa morgundeginum að svara því.“

mbl.is