600 óbólusettir „ógn“ við starfsemi spítalans

Kórónuveiran Covid-19 | 27. október 2021

600 óbólusettir „ógn“ við starfsemi spítalans

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir það áhyggjuefni að 600 starfsmenn Landspítala séu enn ekki bólusettir gegn Covid-19. Hann telur þó að hinir óbólusettu eigi flestir ekki í beinum samskiptum við sjúklinga.

600 óbólusettir „ógn“ við starfsemi spítalans

Kórónuveiran Covid-19 | 27. október 2021

„Vöxtur í smitum í samfélaginu er ógn við okkar starfsemi,“ …
„Vöxtur í smitum í samfélaginu er ógn við okkar starfsemi,“ segir Már. mbl.is/Ásdís

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir það áhyggjuefni að 600 starfsmenn Landspítala séu enn ekki bólusettir gegn Covid-19. Hann telur þó að hinir óbólusettu eigi flestir ekki í beinum samskiptum við sjúklinga.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir það áhyggjuefni að 600 starfsmenn Landspítala séu enn ekki bólusettir gegn Covid-19. Hann telur þó að hinir óbólusettu eigi flestir ekki í beinum samskiptum við sjúklinga.

Már hefur sent fyrirspurn til mannauðsskrifstofu Landspítala um málið. 

„Þetta vekur náttúrulega athygli en reynslan í gegnum starfið í klíníkinni er sú að það er nánast enginn óbólusettur sem starfar þar,“ segir Már í samtali við mbl.is. 

Þar á hann við sjúkraliða, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og aðra sem eiga í beinum samskiptum við sjúklinga Landspítala. Hann telur því líklegt að fólkið sem er óbólusett sinni öðrum störfum, t.d. skrifstofustörfum, öryggisgæslu eða viðgerðum. 

Munu bregðast við

Þetta hlýtur samt að vera áhyggjuefni? 

„Já algjörlega, þetta er ógn við starfsemina þó það sé ekki beinlínis ógn við sjúklingana. Þannig hefur þetta óbein áhrif á starfsemi spítalans, með tilliti til sjúklingaþjónustunnar,“ segir Már.

Hefur eitthvað verið rætt um að fá óbólusett starfsfólk til þess að mæta reglulega í Covid-skimun? 

„Ekki umfram aðra. Það gilda ákveðnar reglur um það þegar fólk er með einkenni. Nú erum við að kanna hvers vegna þessi hópur er óbólusettur og við munum bregðast við því eins og okkur þykir skynsamlegast,“ segir Már.

Nú liggja þrír á gjörgæsludeild Landspítala en tveir bættust við á gjörgæslu í dag.

Telur skynsemi almennings bestu leiðina

Enn sem komið er hafa stjórnendur Landspítala ekki fengið upplýsingar um að nokkur starfsmaður Landspítala hafi smitað sjúkling.

Hjarta-, lungna og augnskurðdeild 12G er nú lokuð vegna smits sem þar kom upp. Fimm sjúklingar eru smitaðir og einn starfsmaður. Talið er að smitið hafi borist inn á spítalann með smituðum aðstandanda en nú er það rannsakað nánar.

Már segir mikilvægt að fólk átti sig á því að smit berist inn á spítalann þegar vöxtur er í faraldrinum í samfélaginu. 

„Það er ástæðan fyrir því að við höfum áhuga á aðgerðum í samfélaginu. Vöxtur í smitum í samfélaginu er ógn við okkar starfsemi. Þessi ógn er tvíþætt, annars vegar ógn við sjúklingana okkar og hins vegar ógn við starfsfólkið okkar. Þ.e.a.s. þeim mun meira sem er um smit á meðal starfsfólks eða náinna ættingja þeirra, þeim mun meira kvarnast úr okkar vinnuafli sem er aftur ógn við okkar starfsemi og þannig sjúklinganna. Þess vegna erum við mjög áhugasöm um það að nýgengið lækki í samfélaginu.“

Már telur ákjósanlegustu aðferðina við að takast á við faraldurinn nú vera skynsemi almennings, að fólk sinni sóttvörnum vel, setji upp andlitsgrímu og sleppi því að vera á ferli þegar það er veikt, án þess að stjórnvöld þurfi að setja á takmarkanir.

„Ef það gerist ekki þá þarf löggjafinn að grípa inn í og vera með íþyngjandi tilmæli til samborgarana,“ segir Már.

mbl.is