Varð ástfangin af Suður-Kóreu

Íslendingar í útlöndum | 15. október 2023

Varð ástfangin af Suður-Kóreu

Katla Margrét Jónasdóttir hefur undanfarið ár búið í höfuðborg Suður-Kóreu, Seúl. Hún varð ástfangin af landi og þjóð þegar hún var á ferðalagi með vinkonum sínum um Suðaustur-Asíu árið 2019 og ákvað í kjölfarið að sækja sér menntun þangað. Hún segir að fólkið það sé einstaklega hlýlegt en maður megi ekki láta sér bregða ef fólk starir á mann, sérstaklega eldra fólkið.

Varð ástfangin af Suður-Kóreu

Íslendingar í útlöndum | 15. október 2023

Katla í sannkölluðu ævintýra hverfi í Incheon.
Katla í sannkölluðu ævintýra hverfi í Incheon. Ljósmynd/Aðsend

Katla Margrét Jónasdóttir hefur undanfarið ár búið í höfuðborg Suður-Kóreu, Seúl. Hún varð ástfangin af landi og þjóð þegar hún var á ferðalagi með vinkonum sínum um Suðaustur-Asíu árið 2019 og ákvað í kjölfarið að sækja sér menntun þangað. Hún segir að fólkið það sé einstaklega hlýlegt en maður megi ekki láta sér bregða ef fólk starir á mann, sérstaklega eldra fólkið.

Katla Margrét Jónasdóttir hefur undanfarið ár búið í höfuðborg Suður-Kóreu, Seúl. Hún varð ástfangin af landi og þjóð þegar hún var á ferðalagi með vinkonum sínum um Suðaustur-Asíu árið 2019 og ákvað í kjölfarið að sækja sér menntun þangað. Hún segir að fólkið það sé einstaklega hlýlegt en maður megi ekki láta sér bregða ef fólk starir á mann, sérstaklega eldra fólkið.

Hvað ertu að gera í Suður-Kóreu?

„Ég flutti til Suður-Kóreu til að eltast við drauma mína sem er að verða listmálari. Listin sem ég hef áhuga á er nokkurn veginn samblanda af íslenskri og Suðaustur-asískri list og eina leiðin til að öðlast þá þekkingu var í raun bara að koma mér út. Þannig til að byrja með sótti ég um hjá Yonsei University í Korean Language Institute, til þess að bæta kóreskuna mína áður en ég sæki um listnám sem er einungis kennt á kóresku og líka til að fá tilfinninguna fyrir því hvernig það er að búa þarna úti.“

Katla við Han ána í Apgujeong (앞구정).
Katla við Han ána í Apgujeong (앞구정). Ljósmynd/Aðsend

Hvar ertu nákvæmlega?

„Eins og er er ég nýkomin aftur til Íslands til þess að safna mér pening fyrir náminu en ég er að leigja íbúð með félaga mínum í hverfi sem heitir Sinchon(신촌) í Seúl, höfuðborg Kóreu og hef búið þar í u.þ.b. eitt ár, eða 11 mánuði til að vera nákvæm.“

Afhverju Suður-Kórea?

„Í sannleika sagt þá hófst áhugi minn á Suður-Kóreu með tónlistinni og ég datt í svokallað „rabbit hole“ um allt í kringum K-pop, K-drama o.fl. Árið 2019 fór ég svo reisu til Suðaustur-Asíu með vinkonum mínum og var Kórea einn af áfangastöðunum. Ég varð algjörlega ástfangin! Menningin, fólkið, maturinn og bara stemningin í loftinu var svo ótrúlega skemmtileg að ég varð að fara aftur og ég sé alls ekki eftir því.

Talarðu málið?

„Já, ég er ekki alveg orðin reiprennandi fær en ég get haldið uppi samræðum við fólk og svona nokkurn vegin náð að tjá mig um langflesta hluti. Enda þróaðist kunnáttan mín hratt við að búa þarna úti, þá sérstaklega hlustun og lestur. Ég er líka alltaf með eyrað opið núna þegar ég er komin aftur Íslands fyrir öðrum sem kunna kóresku til að geta æft mig hér.“

Katla í hefðbundnum kóreskum klæðnaði í Kyeongbokkung höllinni (경복궁).
Katla í hefðbundnum kóreskum klæðnaði í Kyeongbokkung höllinni (경복궁). Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er best að fljúga til Suður-Kóreu?

„Besta leiðin til að fljúga þangað fer í raun eftir flugþoli hvers og eins. Mér finnst best að taka þetta í tveimur leggjum, með einni millilendingu í Frankfurt eða Helsinki. Flugið er nú lengra en það var áður vegna þess að Rússland lokaði fyrir flugsvæði sitt, þannig núna þurfa flugfélög að taka auka sveigju til að komast á áfangastað. Annars er hægt að finna ódýrari leiðir þangað, en þá með fleiri millilendingum.“

Hvernig myndir þú lýsa lífinu í Suður-Kóreu?

„Að aðlagast lífinu þar fannst mér voða þægilegt. Seúl er mjög þróuð borg og í raun þægilegri borg til að búa í heldur en Reykjavík. Það er oft talað um ballí-ballí (빨리빨리) menningu sem lauslega þýðist yfir í fljótfær eða hröð menning. Þá er átt við að fólk er stanslaust að gera hluti, hvort sem það er að vinna, fara á stefnumót eða sinna heimilinu o.fl. Ég fann fyrir því ágætlega í skólanum og bara við að gera venjulega hluti eins og að versla eða skoða vinsæla ferðamannastaði, það var allt mjög rösklega afgreitt.“

Veggmynd með allskonar heimsins tungumálum að segja
Veggmynd með allskonar heimsins tungumálum að segja "Ég elska þig". Meira að segja á íslensku rétt fyrir ofan litlu brúna. Ljósmynd/Aðsend

Hver er helsti munurinn á lífinu þar og á Íslandi?

„Ég held að stærsti munurinn sé í rauninni veðrið. Það munar miklu að búa í landi þar sem dagarnir eru "eðlilegir", sól að degi til og myrkur um kvöldin. Einnig eru allar árstíðirnar eins og manni var kennt sem barni, hlýtt þegar á að vera heitt og kalt þegar á að vera kalt.“

„Annars er þetta allt önnur menning til að aðlagast. Suður-Kórea, eins og mörg önnur lönd í Asíu, er með ákveðið heiðurs kerfi sem maður þarf að fylgja eins og að hneigja sig rétt svo til að heilsa fólki og bera ákveðna virðingu fyrir þeim sem eru eldri eða í hærri stöðu í vinnu eða námi.“

„Þessi menning er einstaklega eftirtektarverð í tungumálinu. Það eru í raun þrjár aðferðir við samskipti. Fyrst er óformlegt mál þegar rætt er milli vina eða til þeirra sem eru yngri. Svo er formlegt mál fyrsta stig, sem er notað í raun alltaf og svo er formlegt mál á öðru stigi, sem er enn önnur leiðin til að tala á kurteisan hátt. En það fer í raun eftir fólki hvort það er vant að nota fyrsta eða annars stigs formlegheit. Þessi aðferð að máli er enn eitthvað sem ég á erfitt með að muna því að ég er svo vön að vera „óformleg“ í íslenskunni.“

Skógurinn við skólann að vetri til.
Skógurinn við skólann að vetri til. Ljósmynd/Aðsend

Kostir og gallar við lífið þarna?

„Ég held að mjög margir sem kjósa að flytja til Kóreu nú til dags eru með ákveðna draumóra um landið og ákveðnar væntingar, sem eru óraunsæjar um hvernig það er að búa þar. Þetta er ekki fullkomið land.“

„Það er enn þá ákveðinn rasismi í landinu og margir sem eru hinsegin halda sér mikið út af fyrir sig. Þó svo að mikið hafi breyst á seinustu árum þá eru enn miklir fordómar þarna. En
eins og ég sagði þá er margt að breytast og persónulega fann ég fyrir mikilli hlýju frá fólki almennt.

„Í hvert skipti þegar ég hóf umræðu á kóresku var fólk spennt yfir því að þau gætu talað við mig án vandræða og forvitnaðist um mig og mína menningu. Ísland er greinilega spennandi fyrir marga þar. Ég held samt að einn stærsti gallinn við Suður-Kóreu er að það þarf ARC númer til þess að nota mörg snjallforrit t.d. til að panta mat og annað, en ARC þýðir „Alien registration card“. En kaffihúsin eru mögnuð og sum þeirra opin allan sólarhringinn (eitthvað sem vantar á Íslandi).“

Hvernig myndirðu lýsa venjulegum degi hjá þér?

„Hver dagur var í raun einstakur hjá mér. En klassískur dagur var í raun að mæta í tíma kl. 9 til 13. Síðan eftir tíma fékk ég mér snöggan hádegismat og skellti mér svo í vinnuna sem byrjaði kl. 14 eða 15 og var að kenna til klukkan tíu á kvöldin. Þá daga sem ég var ekki að kenna þá lagði ég mikla áherslu á að reyna að gera eitthvað úr deginum eins og að fara á sæt kaffihús til þess að læra eða finna nýja veitingastaði með vinum mínum og fara í
alls konar garða og „arcades“. Það er svo mikið hægt að gera í Seúl og kostar ekki endilega hálfan handlegg að taka þátt.“

Hrekkjavaka í Itaewon (이태원) með körlum sem klæddir eru eins …
Hrekkjavaka í Itaewon (이태원) með körlum sem klæddir eru eins og úr White Chicks kvikmyndinni. Ljósmynd/Aðsend

Hefurðu lent í einhverjum ævintýrum eða minnisstæðum lífsreynslum?

„Ekki spurning! Eitt atvik sem er mér ótrúlega minnistætt er að í fyrsta mánuðinum mínum í Seúl þá ákvað ég að nýta góða veðrið og fara í göngutúr að hofi sem er staðsett efst í brekkunni frá götunni sem ég bjó fyrst á. Þetta er gata sem leiðir upp að fjalli þar sem skólinn minn er. Ég var komin upp að hofinu þegar ég stoppa til að njóta útsýnisins og hlusta á munk fara með bæn. Þetta var svo súrrealískt augnablik að ég trúði því varla að ég væri komin þangað. Eftir smá stund af þakklæti þá tók ævintýraþráin stjórn hjá mér og ég hélt áfram upp fjallið þangað til ég byrjaði að heyra eitthvað hljóð og ég ákvað að elta það. Kom í ljós að það var badminton völlur staðsettur í miðju fjallinu og var þar stór hópur af eldra fólki að spila saman og spjalla. Þau komu auga á mig og buðu mér að fá mér sæti og fylgjast með.“

„Einn af körlunum bauð mér kaffibolla sem ég gat ekki neitað og eplasneiðar sem konan hans hafði skorið fyrir þennan dag (allir sem þekkja mig vita að mér finnst kaffi bara alls ekki gott). Allir voru afar indælir við mig og reyndu að spjalla við mig, en á þeim tíma var
kóreska mín ekki burðug. Einn karlanna bauð mér að fá fría badminton kennslu þannig ég fékk að spila smávegis með þeim. Þetta er ein af minnisstæðustu minningunum mínum úr ferðinni. Ég endaði á því að þakka fyrir mig og rölti aftur heim. Ég fékk boð um að koma aftur en eftir þetta varð ég upptekin að því að kynna mér allt annað sem að Suður-Kórea hefur upp á að bjóða.“

Áttu þér uppáhaldsstaði til að heimsækja?

„Það eru alltof margir staðir til en uppáhaldið mitt var í raun annað hvort að fara í helgarferð til Búsan eða skella mér til Incheon. Í Búsan eru margir sérkennilegir og fallegir staðir eins fræga Haedong Yonggungsa (해동 용궁사) hofið við hafið. Í Incheon (인천) fannst mér einstaklega skemmtilegt að koma við í svona „mini“ skemmtigarð, ef svo má kalla það í Wolmido (월미도). Þar eru slatti af skemmtilegum tækjum til að prófa, þar á meðal "Disco pang pang". Örugglega eitt af uppáhalds tækjunum mínum.“

„Þá má ekki gleyma Nami eyjuna. Þetta er gullfalleg lítil eyja svona í sirka tveggja tíma ferðalagi frá Seúl þar sem hægt er að fara í teygjustökk og taka annað hvort zip-line yfir á eyjuna eða ferju. Á eyjunni er hægt að sjá alls konar dýr svo sem storka og páfugla, leigja hjól, taka fallegar myndir, fara á lítil söfn, mála og margt fleira. Ég mæli eindregið með að fara þangað!“

Útsýni af Jeju eyjunni.
Útsýni af Jeju eyjunni. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsveitingastaði?

„Ég var með þrjá aðal uppáhalds staði til að fara á. Fyrst er staður sem ég fann árið 2019 og fann svo aftur rétt áður en ég kom aftur til Íslands. Sá staður heitir Sopoong(소풍). Þetta er klassískur lítill kóreskur staður sem er með bestu réttina til að deila með öðrum. Það er indælt fólk sem á staðinn sem komu til móts við hvaða kröfur sem er, ef svo skyldi vera. Hann er líka staðsettur í Hongdae sem er svona „Hip“ svæði fyrir yngra fólkið.

Annar staður sem ég dýrka heitir Rahwakungboo(라화쿵부), þetta er í raun kínverskur staður og selur súpu sem kallast Maratang. Þetta er besti rétturinn til að fá sér áður en maður skellir sér á djammið. Þú getur ákveðið allt sem fer í hana og hversu sterk hún er. 

Þriðja staðinn kölluðum við vinirnir „the stinky place“ því það var alltaf svo ótrúlega sterk
kimchi lykt þarna inni. Staðurinn kallast XXX, en þar fær maður líka klassískan kóreskan mat, en einnig meira af réttum sem fólk þekkir lítið til. Minn uppáhaldsréttur er ákveðin kimchi súpa með túnfiski (참치김치찌개), algjört lostæti!“

Einhver góð ráð fyrir fólk sem vill heimsækja Suður-Kóreu?

„Ég mæli eindregið með að ná í forrit sem heitir Naver Maps, þar sem Google maps virkar takmarkað mikið. Þar er auðveldlega hægt að vista alla staði þannig að auðvelt er að
nálgast þá. Svo er sniðugt að annað hvort fjárfesta í SIM korti eða ferða WiFi kubbi. Því lengri sem ferðin er þá er betra að vera með SIM kort því það getur hjálpað við margt eins og t.d. við að panta sér mat.

Ekki láta sér bregða ef fólk starir, sérstaklega eldra fólkið. Ég veit ekki hvað það er en sama hver þú ert þá starir eldra fólkið endalaust á þig. Það virðist vera slæmt til að byrja með en oftar en ekki meina þau ekkert illt.

Loks má ekki hræðast að nota þá litlu kóresku sem þú kannt því fólk er alltaf jafn ánægt að heyra útlendinga láta reyna á kóreskuna. Og ef að það er lítil sem engin kóresku kunnátta þá er forritið Papagao algjör bjargvættur. Mun betra en Google translate.“

Katla fyrir framan háskólann sinn.
Katla fyrir framan háskólann sinn. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað rætt um Norður-Kóreu þarna í daglegu lífi? Hvernig er sú umræða?

„Auðvitað heyrir maður mikið rætt um Norður-Kóreu í fréttunum og það er fátt öðruvísi en fréttist til Íslands. Auðvitað erum við vör um ástandið en það kemur ekki stanslaust til umræðu. Kóreubúar tala oftar um Japan og leiðinlega sambandið sem var þar á milli heldur en um Norður-Kóreu. Ég vil líkja því við tilfinningu okkar um samband Íslands og Danmerkur hér áður fyrr, því fortíðin er svipuð þegar það kemur að valdabaráttu. Þó var mun minna blóði úthellt hjá okkur og Dönum, en hjá Kóreu og Japan. Þannig að almennt heyrir maður ekki mikið rætt um ástandið, en hermenn minna mann auðvitað á nærveru Norður-Kóreu.“

mbl.is