„Gat oft verið hörð við sjálfa mig“

Framakonur | 24. nóvember 2023

„Gat oft verið hörð við sjálfa mig“

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir er listakona sem vakið hefur mikla athygli fyrir verk sín. Á morgun, laugardag, opnar hún áhugaverða einkasýningu í Þulu gallerý sem heitir Opna. Við kíktum í heimsókn til hennar á vinnustofuna og fengum um leið innsýn í hennar daglega líf og hvað drífur hana áfram.

„Gat oft verið hörð við sjálfa mig“

Framakonur | 24. nóvember 2023

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir listakona opnar sýningu í Þulu gallerý …
Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir listakona opnar sýningu í Þulu gallerý sem er í Marshall húsinu, Grandagarði 20. Eyþór Árnason

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir er listakona sem vakið hefur mikla athygli fyrir verk sín. Á morgun, laugardag, opnar hún áhugaverða einkasýningu í Þulu gallerý sem heitir Opna. Við kíktum í heimsókn til hennar á vinnustofuna og fengum um leið innsýn í hennar daglega líf og hvað drífur hana áfram.

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir er listakona sem vakið hefur mikla athygli fyrir verk sín. Á morgun, laugardag, opnar hún áhugaverða einkasýningu í Þulu gallerý sem heitir Opna. Við kíktum í heimsókn til hennar á vinnustofuna og fengum um leið innsýn í hennar daglega líf og hvað drífur hana áfram.

„Ég hef haft áhuga á myndlist síðan ég var barn og fékk alltaf mikla hvatningu og stuðning á því sviði sem ég held að hafi skipt miklu máli fyrir mig. Eftir menntaskóla fannst mér ekkert annað koma til greina en að leggja myndlistina fyrir mig og síðan þá hef ég fetað þann veg, skref fyrir skref. Ég fór í fornámið í Myndlistaskóla Reykjavíkur þaðan í Listaháskólann og svo til New York þar sem ég fór í mastersnám í myndlist í School of Visual Arts,“ segir Áslaug um það hvernig hún leiddist út í listamannslífið.

Áslaug á vinnustofu sinni umkringd nýjustu verkum sínum.
Áslaug á vinnustofu sinni umkringd nýjustu verkum sínum. Eyþór Árnason

Nauðsynlegt að fara út fyrir sitt venjulega umhverfi

Áslaug bjó um tíma í Bandaríkjunum meðan hún lærði til listarinnar.

„Það var mikil reynsla að búa í Bandaríkjunum, mér fannst heimurinn stækka tífallt. Það er svo nauðsynlegt að fara út fyrir sitt venjulega umhvefi og inn í annað samhengi bæði myndlistalega séð og líka fyrir persónulegan þroska. Fyrstu mánuðurnir í skólanum fóru bara í það að opna og taka allt inn. Það er visst frelsi sem maður upplifir í krafti fjöldans og það var mjög áhugavert að finna fyrir því.“

Er þolinmóð og þrautseig en á sama tíma metnaðargjörn

„Eftir námið og sex ára dvöl í Bandaríkjunum í New York og svo í Seattle kom ég heim og hægt og rólega fór ég að sýna meir og meir og vinna markvisst að myndlistinni. Fyrst um sinn samhliða vinnu en smám saman hefur myndlistin tekið alveg yfir.“

„Á meðan ég er að gera það sem ég elska, skapa og fylgja innsæinu þá er ég á réttri leið. Þá gengur vel, tækifærin koma til manns, ferillinn vex og ég sem manneskja samhliða því. Ég held líka að rólyndi mitt hjálpi mér því ég er einstaklega þolinmóð og þrautseig á sama tíma og ég er metnaðagjörn. Ég trúi því að lífið flæði með mér og að hlutirnir gerist á réttum augnablikum.“

„Gat oft verið hörð við sjálfa mig“

Aðspurð um helstu áskoranirnar nefnir Áslaug sjálfsgagnrýnina.

„Ætli mín helsta áskorun hafi ekki verið sú að í gegnum tíðina gat ég oft verið hörð við sjálfa mig og sjálfsgagnrýnin olli því að lengi vel þorði ég ekki að hafa mig mikið í frammi. En nú hef ég lært að sýna sjálfri mér mildi, opna og treysta.“

„Þegar ég var tvítug hélt ég að það væri svo margt sem ég mætti ekki gera. Ég var hrædd við að vera dæmd og við að taka pláss, hafa rödd og hrædd við að gera mistök. Ég hefði viljað vita að þetta allt saman má og líka það að það er engin ein rétt leið í lífinu eða eitt rétt svar heldur endalausir möguleikar sem aðeins ég get tekið ákvörðun um.“

Áslaug segir að kennarar hafi hjálpað henni út úr skelinni.

„Allir kennarar sem ég hef átt um ævina eiga sérstakan stað í mínu hjarta. Flestar þeirra voru konur. Ég var mjög feimin og mikið inn í mér sem barn og unglingur og þessar konur gáfu sig að mér og gáfu mér rými til að tjá mig og opna mig. Ég er umkringd mögnuðum konum sem allar eru á sinni vegferð, trúar sjáfri sér og blómstra þannig. Móðir mín er svo sterkasta fyrirmyndin í lífi mínu. Hún hættir aldrei að þroska sig og læra og sýnir það í verki að það er kærleikurinn sem skiptir mestu máli í lífinu.“

Einkasýning á verkum Áslaugar opnar um helgina í Þulu Gallerí …
Einkasýning á verkum Áslaugar opnar um helgina í Þulu Gallerí úti á Granda. Eyþór Árnason

Dagarnir eru stundum langir

Áslaug gætir þess að hlúa að jafnvæginu þegar mikil tarnavinna er í gangi.

„Ég hef sem betur fer aldrei alveg ofkeyrt mig en þegar maður vinnur í listum þarf maður oft að vinna í miklum törnum. Þegar stórar sýningar eða verkefni eru framundan þá krefst það mikillar vinnu yfir langan tíma og enn meiri þegar skilafresturinn nálgast. Þá geta dagarnir stundum orðið ansi langir og jafn vel teygst fram á kvöld. Það góða við svona tarnavinnu er að ég get oftast tekið mér tíma og hvílt mig eftir á og þá tek ég mér jafnvel frí frá vinnustofunni í nokkra daga.“

Verkefni dagsins geta verið margbreytileg að sögn Áslaugar.

„Fjölskyldan vaknar og við komum krökkunum í skólana sína og leikskóla. Þegar ég er komin á vinnustofuna sest ég niður með góðan kaffibolla, kveiki oftast á Rás 1 og á rólega stund með sjálfri mér áður en ég hefst handa við verkefni dagsins sem geta verið margvísleg. Í lok dags sæki ég yngri dóttur mína í leikskólann klukkan fjögur og svo er það bara heimilislíf eftir það.“

„Þegar ég er ekki að störfum þá finnst mér frábært að nýta tímann og heimsækja söfn og gallerí eða heimsækja kollega á vinnustofurnar þeirra. Það gefur mér líka mikið að verja tíma með fjölskyldunni og eiga saman rólega daga heima eða upp í bústað.“

„Við vinnslu sýningarinnar gerðist það ítrekað að ég varð steinhissa …
„Við vinnslu sýningarinnar gerðist það ítrekað að ég varð steinhissa á sjálfri mér því ég bjóst ekki við svona kraftmiklum verkum, en þau bókstaflega sprungu út fyrir framan mig eins og ég hafi opnað inn í eitthvað hólf innra með mér og þaðan komu þau." Eyþór Árnason

Bjóst ekki við svona kraftmiklum verkum

Sýning Áslaugar í Gallerí Þulu heitir Opna og vísar titillinn bæði í sögnina að opna en líka í opnu eins og í opinni bók.

„Við vinnslu sýningarinnar gerðist það ítrekað að ég varð steinhissa á sjálfri mér því ég bjóst ekki við svona kraftmiklum verkum, en þau bókstaflega sprungu út fyrir framan mig eins og ég hafi opnað inn í eitthvað hólf innra með mér og þaðan komu þau. Mér leið eins og ég væri meira að eltast við þau og koma þeim í form. Verkin eru litrík og það er mikill leikur í þeim og gleði en ég er virkilega spennt að sýna þau í þessu fallega rými,“ segir Áslaug en sýningin stendur til 23. desember.

„Myndlistin er samofin lífi mínu. Ég tjái mig í gegnum sköpunina og vex með henni. Þegar ég er í skapandi ferli þá er ég opnari, næmnari og ég hugsa á annan hátt en ég geri í hversdeginum,“ segir Áslaug að lokum.

Sýning Áslaugar er í Marshall húsinu, Grandagarði 20 og stendur …
Sýning Áslaugar er í Marshall húsinu, Grandagarði 20 og stendur til 23. desember. Eyþór Árnason
mbl.is