Grimmd og brostnir draumar

Bókaland | 18. desember 2023

Grimmd og brostnir draumar

Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar, Sæluríkið, fjallar um brostna drauma, hugsjónir á villigötum og kalda grimmd – og fólk sem á stórra harma að hefna. Við Hafravatn finnst ferðamaður látinn með áverka á höfði. Þegar ljóst verður að hann er í raun íslenskur og kom við sögu hjá lögreglunni þegar félagi hans hvarf nokkrum áratugum fyrr fer Konráð að grufla í samhengi hlutanna. Hans eigin fortíð blandast þar inn; umtalað morðmál frá áttunda áratugnum veldur uppnámi innan lögreglunnar og fornvinur hans, Leó, er farinn í felur. Um leið leitar tíðarandi kalda stríðsins á huga Konráðs, andrúmsloft samfélags í fjötrum sem litaðist af heift og flokkadráttum. Sæluríkið er 27. skáldsaga höfundar en hér getur þú lesið fyrsta kafla bókarinnar. 

Grimmd og brostnir draumar

Bókaland | 18. desember 2023

Arnaldur Indriðason skrifar um brostna drauma og grimmd í sinni …
Arnaldur Indriðason skrifar um brostna drauma og grimmd í sinni 27. bók. mbl.is/Árni Sæberg

Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar, Sæluríkið, fjallar um brostna drauma, hugsjónir á villigötum og kalda grimmd – og fólk sem á stórra harma að hefna. Við Hafravatn finnst ferðamaður látinn með áverka á höfði. Þegar ljóst verður að hann er í raun íslenskur og kom við sögu hjá lögreglunni þegar félagi hans hvarf nokkrum áratugum fyrr fer Konráð að grufla í samhengi hlutanna. Hans eigin fortíð blandast þar inn; umtalað morðmál frá áttunda áratugnum veldur uppnámi innan lögreglunnar og fornvinur hans, Leó, er farinn í felur. Um leið leitar tíðarandi kalda stríðsins á huga Konráðs, andrúmsloft samfélags í fjötrum sem litaðist af heift og flokkadráttum. Sæluríkið er 27. skáldsaga höfundar en hér getur þú lesið fyrsta kafla bókarinnar. 

Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar, Sæluríkið, fjallar um brostna drauma, hugsjónir á villigötum og kalda grimmd – og fólk sem á stórra harma að hefna. Við Hafravatn finnst ferðamaður látinn með áverka á höfði. Þegar ljóst verður að hann er í raun íslenskur og kom við sögu hjá lögreglunni þegar félagi hans hvarf nokkrum áratugum fyrr fer Konráð að grufla í samhengi hlutanna. Hans eigin fortíð blandast þar inn; umtalað morðmál frá áttunda áratugnum veldur uppnámi innan lögreglunnar og fornvinur hans, Leó, er farinn í felur. Um leið leitar tíðarandi kalda stríðsins á huga Konráðs, andrúmsloft samfélags í fjötrum sem litaðist af heift og flokkadráttum. Sæluríkið er 27. skáldsaga höfundar en hér getur þú lesið fyrsta kafla bókarinnar. 

1 

Ladan drap á sér eina ferðina enn og þau ýttu henni lokaspölinn út á bryggjuna í áttina að rússneska togaranum. Hún stóðst ekki bifreiðaskoðun og það var æði kostnaðarsamt að láta gera við hana, svona gamla og úr sér gengna, þannig að þau höfðu afskráð hana fyrir nokkrum mánuðum og stálust til að aka henni númerslausri þessa síðustu ferð. Hún hafði staðið fyrir framan blokkina hjá þeim, sinnepsgulur liturinn mattur og máður og ryðblettirnir eins og frunsur um allan skrokkinn. Þau höfðu stigið niður í gegnum ryðbrunna plötuna í gólfinu farþegamegin. 

Þau streittust við að mjaka druslunni áfram þessa síðustu metra og námu loks staðar við landganginn og blésu mæðinni. Komið var myrkur og togarinn gnæfði yfir þeim við bryggjuna, það var eins og hann væri tilbúinn að leggja frá landi. Það drundi í vélunum. Skipsljósin lýstu niður á þau og tveir skipverjar teygðu sig yfir borðstokkinn og kölluðu eitthvað til þeirra á rússnesku sem þau skildu ekki. Héldu kannski að þeir væru að banda þeim frá. 

Þau höfðu ekki hugmynd um hvernig svona viðskipti færu fram og byrjuðu að klifra upp landganginn þegar enginn virtist ætla að sinna þeim neitt, en þá birtust Rússarnir tveir á ný, vörnuðu þeim uppgöngu og vísuðu þeim burt. Þau brostu og skýrðu erindi sitt á brogaðri ensku og bentu á Löduna niðri á bryggjunni, en Rússarnir sýndu henni engan áhuga og bönduðu þeim aftur frá og nú miklu ákveðnar en áður. 

Aftur heyrðust drunur úr vélarrúminu. Þau voru of sein. Rússarnir voru að sigla. 

– Selling car! kallaði hún þar sem hún stóð enn uppi á landganginum. Very cheap. 

– You can have it, kallaði hann. 

– No, no, go away! No car! heyrðu þau annan Rússann hrópa. 

– Go, go away! hrópaði hinn. 

Þau litu hvort á annað í uppgjöf. Þau höfðu lesið í blöðunum að margir Lödueigendur færu með bílana sína niður á höfn að selja þá Rússunum. Jafnvel að Rússarnir færu um bæinn í leit að Löduskrjóðum til þess að kaupa. Markaður var fyrir gamlar Lödur í Rússlandi. Þau höfðu heyrt að sjómennirnir ættu kannski sína eigin Lödu heima fyrir og hirtu það sem væri nýtilegt úr íslensku bílunum í varahluti áður en þeir létu þá gossa í sjóinn einhvers staðar á leiðinni austur í sæluríkið. Hjá öðrum eignuðust þær framhaldslíf og voru fyrr en varði komnar út á göturnar þar eystra eins og þær hefðu aldrei verið óökufærir ryðkláfar og druslur í skammdeginu á Íslandi. 

Þau veittu því athygli að önnur Lada stóð uppi á þilfarinu, að mestu hulin þykkum og skítugum segldúk. Þau sáu ekki nema aftasta hluta hennar og tóku eftir því að hún var blá á litinn. Litlu fjær var eins og einhverjir Rússanna ættu í snörpum áflogum áður en þeir hurfu skyndilega undir þiljur. Konan hnippti í manninn sinn þegar hún sá til þeirra en hann tók ekki eftir neinu. 

– Fjandinn, sagði hann og bakkaði niður landganginn. Ég held að þeir vilji ekki aðra Lödu. 

Hún teygði fram álkuna og sá að annar Rússinn flýtti sér að breiða alveg yfir bílinn. 

– Hvað eigum við að gera? sagði hún. 

– Verðum við ekki bara að koma okkur? 

– Og skilja Löduna eftir hérna á bryggjunni? 

Í því birtist einhver sem virtist vera yfirmaður á skipinu og var foxillur. Hann hrópaði að þeim ókvæðisorð og rak þau með látum aftur niður á bryggjuna. Svo fór hann að rífast og skammast í skipverjunum tveimur sem vörnuðu þeim uppgöngu. Þeir reyndu eitthvað að svara fyrir sig en yfirmaðurinn æstist þá enn frekar, byrjaði aftur að lesa yfir þeim óbótaskammir og rak þá loks undir þiljur. 

Skipið virtist vera farbúið. Yfirmaðurinn hljóp að landganginum og gelti einhverjar fyrirskipanir og skipverji hljóp til og losaði festar og landgangurinn var dreginn upp í snatri. Það drundi í skipsvélinni og togarinn mjakaði sér frá bryggjunni. 

Þau fylgdust með honum sigla úr höfninni, hissa á öllu upphlaupinu, og röltu svo út á næstu stoppistöð. Þau gátu ekkert gert við Löduna í bili. Það hafði verið nógu erfitt að koma henni þarna niður eftir. Þau sáu ekki hvernig þau áttu að koma henni heim aftur og skildu hana eftir ógangfæra og ónýta þar sem hún stóð. 

Þetta var í vetrarbyrjun og á meðan þau biðu eftir strætisvagninum skammt frá gömlu Faxaverksmiðjunni féll fyrsti snjór vetrarins. 

– Hvaða helvítis læti voru þetta í kallinum? sagði hann. Ætli þetta hafi verið skipstjórinn? 

– Ég hélt að hann ætlaði í þig. Hann var brjálaður. 

– Rússar …! 

– Voru þeir ekki að slást? sagði hún og horfði á snjókornin flögra til jarðar í logninu og teygði höndina út til að fanga þau. Hún sá vagninn beygja inn á götuna í fjarska. 

– Slást? sagði hann. 

– Mér sýndist það, sagði hún. Ætli sé ekki mikið drukkið um borð í þessum togurum? Allt fljótandi í vodka. Það var eins og þeir væru í áflogum. 

– Ég veit það ekki. Ég sá ekkert. 

– Eitthvað verðum við að gera við Löduna, sagði hún. 

– Pælum í því á morgun. 

– Vonandi fær hún bara að vera þarna þangað til næsti togari kemur, sagði hún um leið og þau stigu upp í vagninn. 

– Já, ég veit ekki hvort ég nenni að standa í þessu, kannski ættum við að láta þetta eiga sig, sagði maðurinn hennar vondaufur og horfði í átt að höfninni. Líklega er best að setja drusluna í brotajárn. 

mbl.is