Björgunarmenn fengu hvorki nauðsynlegar upplýsingar né tækjabúnað

Björgunarmenn segja að margir gíslanna, sem létust úr gaseitrun eftir að rússneskir sérsveitarmenn réðust inn í leikhúsið þar sem þeir höfðu verið í haldi frá því í síðustu viku, hafi látist vegna þess að björgunarmenn hafi hvorki fengið viðeigandi upplýsingar um aðstæður í leikhúsinu, né nauðsynlegan tækjabúnað til að bjarga fólkinu..

„Við höfðum ekki einu sinni nógu margar börur," segir björgunarmaður sem ekki vill láta nafns síns getið. „Til að bjarga fólkinu hefðum við þurft marga sérhæfða björgunarmenn sem ynnu samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun. Ef við hefðum bara vitað hvað beið okkar. Hefði okkur bara verið sagt að við yrðum að bera mikinn fjölda meðvitundarlausra einstaklinga út. Hefði okkur bara verið sagt að fólkið myndi eiga við öndunarerfiðleika að stríða," segir björgunarmaðurinn. Þá segir hann undirbúning björgunarmanna hafa miðast við að þeir yrðu að hlúa að fólki sem hefði særst í sprengingum. Þjóðarsorg ríkir í Rússlandi eftir að 117 gíslar féllu í innrás sérsveitarmanna í leikhúsið á laugardag en fimmtíu vopnaðir uppreisnarmenn höfðu haldið um 800 gíslum í leikhúsinu frá því á miðvikudagskvöld. Yfirvöld hafa viðurkennt að 115 gíslanna hafi látist úr gaseitrun.
mbl.is