Frönskum kjósendum heitt í hamsi

Franski hægri maðurinn og þjóðernissinninn Jean-Marie Le Pen greiðir atkvæði …
Franski hægri maðurinn og þjóðernissinninn Jean-Marie Le Pen greiðir atkvæði sitt í Saint Cloud úthverfi Parísar. Hann er mjög á móti stjórnarskránni. AP

Mikil eftirvænting ríkir vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá Evrópusambandsins, en hún fer fram í dag. Kjósendum sem teknir voru tali var heitt í hamsi hvort sem þeir ætluðu að segja „já“ eða „nei“.

Francois Sarrazin, 57 ára prófessor í lögum, sagði hræðilegt ef Frakkar hafna stjórnarskránni. Þegar hann var búinn að kjósa á kjörstað nálægt staðnum þar sem Bastillan var í París þusti hann í bræði út og hóf að rífa niður með nöglunum öll veggspjöld sem hann sá þar sem kjósendur voru hvattir til að segja „nei“.

Evrópa „verður að sameinast til að verða sterkari - það er bara augljóst,“ sagði hann á meðan hann var í óða önn að reyna að eyðileggja „nei“-veggspjöld. „Fólk bara veit ekki hvað Evrópa gerir. Í fréttunum sérðu fréttir af hitabylgjum, glæpum eða hvað veit ég, en aldrei um málefni Evrópu.... Það er sorglegt hvað skortir á upplýsingarnar,“ hélt hann áfram.

Við Bastillu-kjörstaðinn sögðust flestir hafa merkt við „já“ á kjörseðlinum. Hverfið var eitt sinn verkamannahverfi en er nú orðið fínna hverfi með vinsælum börum og dýrum búðum.

Vill ekki kapítalíska Evrópu

Og nánast allir þeir sem sögðust hafa sagt „nei“ voru tregir til að koma fram undir nafni, sögðu að sjónvarpið og flestir stjórnmálamenn hefðu látið líta svo út að þeir sem ætluðu að hafna stjórnarskránni væru af hinu illa.

„Þeir leyfðu okkur að velja: segið já eða segið já,“ sagði Anne-Marie Latremoliere, 57 ára grafískur hönnuður og vinstri sinnuð sem sagði nei. „Þeir hömruðu á þessu stöðugt, eins og það væri ekkert annað val.“

„Þetta er óþolandi,“ sagði Christiane Caroli, ellilífeyrisþegi sem kaus „nei“. „Þessi stjórnarskrá snýst öll um peninga... Ég er hlynnt Evrópu, en ekki kapítalískri Evrópu.“

Lítill drengur leikur sér í kjörklefanum á meðan móðir hans …
Lítill drengur leikur sér í kjörklefanum á meðan móðir hans kýs í Chanonat í Frakklandi í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert