Múslimir í Hollandi gagnrýna tillögu um búrkubann

Reuters

Múslimir í Hollandi hafa gagnrýnt tillögu stjórnvalda um að múslimskum konum verði bannað að klæðast búrkum, sem hylja þær frá toppi til táar, og andlitsblæjum á opinberum vettvangi. Segja samtök hollenskra múslima að nái tillagan fram að ganga muni múslimum í landinu þykja að sér vegið og finnast sér útskúfað.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Hollenska stjórnin segir að búrkur grafi undan allsherjarreglu og öryggi. Samkvæmt tillögunni verður konum bannað að klæðast búrkum á götum úti, í lestum, skólum, strætisvögnum og í réttarsölum í Hollandi.

Rita Verdonk, ráðherra innflytjendamála, sem er kunn fyrir einarða afstöðu, sagði að mikilvægt væri að fólk gæti séð og borið kennsl á hvert annað með óyggjandi hætti. Slíkt væri forsenda umburðar- og samlyndis.

Þingkosningar eru framundan í Hollandi, og allt útlit fyrir að ríkisstjórnin haldi velli. Í fyrra kvaðst meirihluti þingmanna hlynntur búrkubanni.

mbl.is