22 látnir í skotárás í Virginíu

Lögreglumenn bera út særða nemendur
Lögreglumenn bera út særða nemendur AP

Í það minnsta tuttugu og tveir eru sagðir hafa látist í skotárás sem gerð var í tækniháskólanum í Blacksburg í Virginíu í Bandaríkjunum í dag. Rúmlega tuttugu eru særðir eftir árásina. Árásarmaðurinn er sagður hafa verið skotinn til bana og að sögn Sky fréttastofunnar var um að ræða ungan Asíumann, sem var með mikil magn af skotfærum í fórum sínum. Skotárásin átti sér stað á heimavist við skólann og í skólastofu.

Allt skólahald lá niðri við skólann sl. föstudag samkvæmt fréttastofunni CNN, vegna sprengjuhótunar. Sagt var frá því fyrr í dag að lögregla leitaði annars árásarmanns, en það reyndist aðeins varúðarráðstöfun, og er árásarmaðurinn nú sagður hafa verið einn á ferð.

Fréttastofan Sky hefur eftir vitnum að byssumaðurinn hafi stillt nemendum upp og skotið þá hvern af öðrum.

Ekki hafa fleiri fallið í viðlíka árás í Bandaríkjunum síðan tólf nemendur létust við Columbine menntaskólann auk tveggja árásarmanna í Colorado árið 1999.

Samkvæmt fréttastofunni AFP var tilkynnt um skotárásina klukkan 7:15 að staðartíma á West Ambler Johnston heimavistinni þar sem 895 nemendur búa, og skömmu síðar í byggingunni Norris Hall, en þar er kennd verkfræði.

Haft er eftir nemanda við skólann að útgöngubann hafi verið sett á strax eftir fyrri árásina, en að árásarmaðurinn hafi aftur látið til skarar skríða þegar banninu var aflétt tímabundið. Ekki er ljóst hvort árásarmaðurinn var nemandi við skólann.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem skotárás er gerð við skólana, en á fyrsta kennsludegi í ágúst sl. flýði strokufangi á skólasvæðið og lést lögreglumaður í eftirförinni.

mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert