Hluta Heathrow-flugvallar lokað vegna grunsamlegs bögguls

Cherokee-jeppinn sem ekið var inn í flugstöðvarbygginguna á Glasgowflugvelli.
Cherokee-jeppinn sem ekið var inn í flugstöðvarbygginguna á Glasgowflugvelli. Reuters

Flugstöðvarbyggingu 3 á Heathrow flugvelli í Lundúnum var lokað í kvöld eftir að grunsamlegur böggull fannst í byggingunni. Byggingin var opnuð á ný eftir um það bil klukkustund þegar ljóst þótti að engin hætta væri á ferðum. Icelandair notar flugstöðvarbyggingu 1 á flugvellinum.

Enn er í gildi hæsta viðbúnaðarstig á Bretlandseyjum vegna hryðjuverkahættu Fyrr í kvöld sagði breska lögreglan, að rannsókn á misheppnuðum sprengjutilræðum í Lundúnum og Glasgow síðustu daga gangi vel. Hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, eftir Peter Clarke, yfirmanni hryðjuverkarannsóknadeildar bresku lögreglunnar, að hann sé þess fullviss að upplýsingar fáist um aðferðir hryðjuverkamannanna, sem stóðu að aðgerðunum, og skipulag þeirra.

Lögregla segir að augljós tengsl séu á milli bíla, sem fundust í miðborg Lundúna á föstudag fullir af gasi og sprengiefni, og jeppa, sem ekið var logandi á flugstöðvarbygginguna á Glasgowflugvelli í gær. Fimm manns hafa verið handteknir vegna málsins, í Cheshire, Liverpool og á Glasgowflugvelli.

BBC segir að lögregla sé að leita að einum manni í viðbót og það skýri hvers vegna enn sé í gildi hæsta viðbúnaðarstig.

„Rannsókn á þessum árásum gengur vel. Það eru engar ýkjur, að við fáum stöðugt nýjar upplýsingar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert