Forsetafrú Bandaríkjanna gagnrýnir herforingjastjórnina í Búrma

Laura Bush
Laura Bush AP

Forsetafrú Bandaríkjanna, Laura Bush, hvatti herforingjastjórnina í Búrma til þess að láta  Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, lausa úr haldi og hvatti nágrannaríki Búrma til þess að auka þrýsting á stjórnvöld í Búrma að auka pólitískt frelsi í landinu á fundi í Washington í dag.

Að sögn Bush hefur Than Shwe, leiðtogi herforingjastjórnarinnar, einungis gefið smávægilegar vísbendingar um hvernig bæta eigi ástandið í landinu en stjórnvöld í Búrma eru undir miklum alþjóðlegum þrýstingi um að gera úrbætur á stjórnmálaástandinu í landinu.

„Ef honum og herforingjunum er alvara þá ættu þeir að veita Aung San Suu Kyi óheftan aðgang að samfélaginu og öðrum liðsmönnum stjórnarandstöðunnar á Búrma," sagði Laura Bush á myndsímafundi í Washington í dag með stofnanda heilsugæslustöðvar í Taílandi sem aðstoðar fólk sem flúið hefur frá Búrma.   

„Bush forseti og ég hvetjum allar þjóðir, og þá sérstaklega nágrannaríki Búrma til þess að nýta áhrif sín til þess aðstoða við að koma á lýðræðislegum breytingum," sagði Laura Bush.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert