Elisabeth Fritzl ætlar að veita sjónvarpsviðtal

Kveðja frá Elisabeth Fritzl til íbúa í þorpinu Anstetten. Þarna …
Kveðja frá Elisabeth Fritzl til íbúa í þorpinu Anstetten. Þarna stendur: Óskir: Að Kerstin, dóttur minni batni. Ást barnanna, Fjölskyldan sé óhult. Að fólk sýni hlýju og skilning. Reuters

Elisabeth Fritzl, sem haldið var fanginni í kjallara í Austurríki í 24 ár þar sem hún eignaðist sjö börn með föður sínum, ætlar að koma fram í sjónvarpi á einhverjum næstu dögum og fjalla um málið frá sinni hlið. 

Engar myndir hafa náðst af Elisabeth og börnum hennar frá því þeim var sleppt úr kjallaranum. Ljósmyndarar hafa sumir búið um sig í trjám utan við sjúkrastofnunina þar sem fjölskyldan dvelur og hefur Elisabeth nú ákveðið að veita eitt sjónvarpsviðtal í þeirri von að ásókninni linni. Mun hún koma fram í sjónvarpsstöðinni ORF.

Sagt er, að litið sé til þess hvernig austurríska stúlkan Natascha Kampusch tók á sínum málum eftir að hún losnaði úr haldi mannræningja eftir 8 ára vist í jarðhýsi en hún veitti ORF sjónvarpsviðtal. Fréttamaðurinn Cristoph Feuerstein ræddi við Kampusch og er reiknað með að hann taki  einnig viðtalið við Fritzl. 

ORF mun ekki greiða fyrir viðtalið en hefur einkarétt á efninu. Sérfræðingar segja að sjónvarpsstöðin muni án efa selja sýningarréttinn fyrir jafnvirði tuga milljóna króna og að stór hluti þess fjár muni renna til Fritzl-fjölskyldunnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka