Obama heimsækir Hawaii

Barack Obama, forsetaefni demókrata, flaug til Hawaii í dag til að heimsækja ömmu sína sem er alvarlega veik. Obama hefur gert hlé á kosningabaráttu sinni á meðan heimsókninni stendur. Tæpar tvær vikur eru þar til Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta.

Obama mun verja tíma sínum á Honolulu þar sem hann mun heimsækja ömmu sína, Madelyn Dunham, sem ól hann upp.

Áður en Obama flaug til Hawaii gagnrýndi hann skattatillögur John McCains, forsetaefni repúblikana, á kosningafundi í Indianapolis, en McCain vill lækka skatta á fyrirtæki úr 35% í 25%.

Um 35.000 manns voru viðstaddir fjöldafundinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina