Leyniþjónustumenn rannsakaðir

David Cameron vill láta rannsaka meintar pyntingar á grunuðum hryðjuverkamönnum ...
David Cameron vill láta rannsaka meintar pyntingar á grunuðum hryðjuverkamönnum þar í landi TOBY MELVILLE

David Cameron, forsætirráðherra Bretlands, hefur samþykkt yfirheyrslur yfir breskum leyniþjónustumönnum, vegna gruns um aðild þeirra að pyntingum á grunuðum hryðjuverkamönnum. Þetta herma heimildir BBC.

Talið er að forsætisráðherrann hafi samþykkt mögulegar bætur ríkisins ef í ljós komi að hinir grunuðu hafi verið pyntaðir með vitund og samþykki starfsmanna bresku leyniþjónustunnar.

Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir demókratar hafa lengi hvatt til þess að kannað yrði hvort ásakanir Binyam Mohamed um að öryggisstofnanir krúnunnar hafi vitað af því þegar hann var pyntaður í yfirheyrslum, en Mohamed býr í Bretlandi.

Þáverandi ríkisstjórn Verkalýðsflokksins fullyrti að yfirvöld í Bretlandi hvorki beittu né samþykktu pyntingar.

Breskar öryggisstofnanir hafa ætíð neitað því að þær líði pyntingar við yfirheyrslur.

Dómari mun stýra yfirheyrslunum og segir BBC að ríkisstjórn Cameron muni tilkynna um nánari útfærslu rannsóknarinnar síðar í vikunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina