Fylgdust með Breivik myrða vini sína

Anders Behring Breivik við réttarhöldin í dag
Anders Behring Breivik við réttarhöldin í dag AFP

Átján ára norskur menntaskólastrákur, Lars Henrik Rytter Øberg, er einn þeirra sem bar vitni við réttarhöldin yfir norska fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik í Ósló í dag. Øberg lýsti því hvernig hann hafi náð að bjarga lífi sínu með því að kasta sér í ískalt vatnið við Útey undir kúlnaregni frá Breivik.

Hann lýsti því fyrir réttinum hvernig Breivik hafi gengið að pilti sem reyndi að verja höfuð sitt með höndunum en án árangurs þar sem Breivik hikaði ekki eitt augnablik áður en hann skaut piltinn til bana. 

Breivik er ákærður fyrir að hafa myrt 77 manns þann 22. júlí í fyrra, þar af 69 í Útey.

Annað vitni, Mohammed Abdulrahman, lýsti því í dag, á sextánda degi réttarhaldanna, hvernig Breivik hafi skotið unga stúlku skömmu eftir að hann kom út í eyjuna. Fyrsta skotið var úr fjarlægð en síðan gekk hann að henni og skaut aftur. „Það leit út eins og hann sparkaði í hana (til þess að sjá hvort hún væri á lífi). Hann tók síðan annað skotvopn og skaut hana úr um það bil 10 sm fjarlægð,“ sagði Abdulrahman er hann bar vitni í dag.

Abdulrahman lýsti því einnig hvernig hann sá Breivik skjóta þrjú ungmenni til viðbótar af stuttu færi.

Í lok réttarhaldanna í dag sagði Breivik að hann hefði ekki verið í neinum beinum samskiptum við neitt fórnarlambanna fyrir utan öryggisvörð sem hafði tekið í hönd hans þegar hann fór úr ferjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert