Neyða ætti efnaða til að lána fé

Evrur.
Evrur.


Ríkir einstaklingar á evrusvæðinu ættu að greiða hærri skatta eða vera neyddir til þess að lána ríkistjórnum í vanda fé í baráttunni við efnahagsvandann. Þetta eru meðal tillagna hagrannsóknarstofnunar í Berlín.

,,Í mörgum löndum hafa skuldir ríkja vaxið umtalsvert. Á sama tíma eru eignir ríkra  einstaklinga samtals töluvert verðmætari en skuldir allra ríkja á evrusvæðisins,“ segir Stefan Bach talsmaður hagrannsóknarstofnunar í Berlín sem birti nýlega tillögur að því hvernig bregðast mætti við skuldavanda evruríkjanna. 

Að sögn Bach mætti ná þessu fram með tvennum hætti. Annað hvort með því að leggja á skatt í formi hárrar upphæðar sem aðeins væri greidd einu sinni, eða með því að neyða eignamikla einstaklinga til að lána ríkinu fé. Það mætti greiða til baka með vöxtum ef efnahagur landanna batnar. Einnig væri hægt að breyta láninu í auðlegðarskatt ef ekki næðist viðsnúningur í efnahag ríkja evrusvæðisins.       

Samkvæmt tillögunni myndu 8% Þjóðverja þurfa að greiða skattinn. Með þessum hætti gæti ríkið fengið í sinn hlut um 230 milljarða evra í gegnum skattkerfið umfram það sem þýska þjóðin greiðir nú í skatta. Það jafngildir um 9% af landsframleiðslu Þýskalands á ári. 

Tillögur hagrannsóknarstofnunarinnar hafa verið gagnrýndar harðlega af nokkrum hagfræðingum í Þýskalandi. Friedrich Heinemann, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Evrópu, telur að slíkar aðgerðir gangi gegn eignarrétti auk þess sem þær brjóti í bága við þýsk lög. 

Bach telur að einnig mætti nota tillögurnar í löndum sunnar í Evrópu svo sem á Spáni, Grikklandi og á Ítalíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina