Clinton fundar með Netanyahu

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er kominn til Ísraels. Hún mun funda með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra landsins, í kvöld en markmið heimsóknarinnar er að fá Ísrael og Hamas-samtökin til að semja um vopnahlé á Gaza. Fyrir fundinn sagði hún við blaðamenn að Bandaríkin heiti Ísraelum stuðningi og að þau vilji tryggja öryggi landsins.

Fundur hennar og forsætisráðherrans fer fram í Jerúsalem. Á morgun mun hún ræða við leiðtoga Palestínumanna á Vesturbakkanum og í framhaldinu  mun hún halda til Kaíró þar sem hún mun hitta Mohamed Morsi, forseta Egyptalands.

Morsi, sem er nátengdur leiðtogum Hamas-samtakanna, hefur reynt að fá hinar striðandi fylkingar til að lýsa yfir vopnahléi.

Ísraelsher hefur gert harðar loftárásir á Gaza í kvöld. Að minnsta kosti 20 Palestínumenn eru sagðir hafa fallið í árásunum í dag. Þá létust tveir Ísraelsmenn, hermaður og almennur borgari, í flugskeytaárásum Hamas-liða í dag.

Fyrr í dag greindu egypskir og palestínskir embættismenn frá því að von væri á tilkynningu um að vopnahléssamkomulag hefði náðst í kjölfar viðræðna í Kaíró í Egyptalandi. Yfirvöld í Ísrael segja aftur á móti að menn séu ekki búnir að gera neitt samkomulag.

Izzat Risheq, sem er hátt settur embættismaður Hamas, sagði seint í kvöld að mögulega verði ekkert samkomulag í höfn fyrr en í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert